Vestmannaey VE kemur til hafnar.  Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE kemur til hafnar.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Bæði skip Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, komu til Vestmannaeyja í gær með fullfermi. Skipstjórarnir segja að nú sé vertíðin hafin og mikið sé af fallegum vertíðarfiski við Eyjarnar. Heimasíðan ræddi við báða skipstjórana og sagði Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, að vel hefði fiskast af þorski og karfa í veiðiferðinni. „Við vorum að koma að norðan þar sem verið var að breyta millidekki skipsins. Við byrjuðum að veiða í Hvalbakshallinu en mestan afla fengum við út af Ingólfshöfða og í Skeiðarárdýpi. Túrinn gekk alveg ljómandi vel og millidekkið svínvirkar. Nú er byrjuð mokveiði hér við Eyjarnar og sannkölluð vertíðarstemmning hafin,“ sagði Birgir Þór.
 
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tók undir með Birgi Þór og sagði að það væri kominn vertíðarbragur á veiðarnar við Eyjar. „Það er að færast fjör í leikinn og þorskurinn er farinn að sýna sig hressilega. Í síðasta túr byrjuðum við að veiða í Skeiðarárdýpinu og fengum þar góða blöndu og töluvert af karfa en síðan færðum við okkur út af Vík og þar fékkst þorskur og ufsi. Þetta lítur allt saman býsna vel út,“ sagði Jón.
 
Nú er leiðinda austanátt og bræla við Eyjar og reiknuðu skipstjórarnir ekki með að fara út fyrr en á morgun.