Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Bergey VE og Vestmannaey VE, komu báðir með fullfermi til Eyja í gær eftir stutta veiðiferð. Aflinn var að mestu ýsa og þorskur en nokkuð einnig af ufsa og lýsu. Heimasíðan ræddi við skipstjórana og spurði þá hvernig vertíðin gengi. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, sagði að vertíðin gengi vel og það væri í reyndinni mokveiði bæði í þorski og ýsu. “Við komum inn eftir hádegið í gær með fullt skip og þá voru liðnir 36 klukkutímar frá því að veiðiferðin hófst. Það er sannast sagna hörkuveiði og þetta er fallegur vertíðarfiskur sem við erum með. Við byrjuðum á að taka ýsu á Landsuðurhrauninu og síðan var farið á Selvogsbankann og þar fékkst blanda af þorski, ýsu og ufsa. Þetta er hörkuvertíð og menn verða að gæta þess að fá ekki of mikið í veiðarfærið. Marsmánuður var býsna góður hjá okkur en við fengum rúmlega 940 tonn í mánuðinum og hefðum getað tekið meira. Þetta er alger draumur í dós,” segir Jón.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, tekur undir með Jóni. “Vertíðin er í hámarki og þetta er bara veisla. Það verður að draga mjög stutt svo holin verði ekki alltof stór. Það er nauðsynlegt að viðhafa aðgæsluveiði. Við vorum að veiða á sömu slóðum og Bergey og erum með svipaða aflasamsetningu. Auðvitað vonum við að það teygist á vertíðinni en nú fara lokanirnar eða hrygningastoppin að byrja fyrir alvöru. Annars eru allir afar glaðir hér um borð og það er sannast sagna ekki tilefni til annars. Síðan má ekki gleyma því að það er að koma vor,” segir Birgir Þór. 

Gert er ráð fyrir að bæði Bergey og Vestmannaey haldi til veiða á ný annað kvöld.

Landað í Eyjum. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson