Mikið er lagt upp úr öryggi á sjó og landi hjá starfsfólki Síldarvinnslunnar. Ljósm. Þorgeir BaldurssonMikið er lagt upp úr öryggi á sjó og landi hjá starfsfólki Síldarvinnslunnar.
Ljósm. Þorgeir Baldursson
Hjá Síldarvinnslunni hefur að undanförnu verið lögð mjög aukin áhersla á öryggismál og er árangurinn greinilegur á  öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. Í ársbyrjun 2016 var Guðjón B. Magnússon ráðinn í starf öryggisstjóra og samkvæmt nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins, sem tók að fullu gildi um nýliðin áramót, verða öryggisnefndir starfandi á hverri starfsstöð og öryggisráð mun síðan hafa yfirumsjón með öryggismálunum og framkvæmd þeirrar öryggisstefnu sem mótuð hefur verið. Öryggisstjóri mun starfa með öryggisráðinu og verða öryggisnefndunum til halds og trausts. Auðvitað bera yfirmenn hverrar starfsstöðvar mikla ábyrgð í þessum efnum en einnig verður lagt allt kapp á að kynna öryggisreglur fyrir starfsmönnum og þar er nýliðafræðsla einkar mikilvæg.
 
Með því að gefa öryggismálunum aukinn gaum hefur tekist að fækka slysum til mikilla muna og að sjálfsögðu er stefnt að því að árið 2017 verði slysalaust ár á starfsstöðvunum. Í landvinnslunni (fiskiðjuveri og fiskimjölsverksmiðjum) hefur þróun slysatíðni verið í mjög rétta átt. Árið 2012 voru 18 vinnuslys á þessum starfsstöðvum, þau voru 13 á árinu 2014 en einungis 5 á árinu 2016. Sama er að segja um þróunina hjá skipum fyrirtækisins. Á árinu 2012 voru 4 vinnuslys á skipunum, þau voru 7 á árinu 2014 en einungis 3 á síðasta ári. Athygli vekur að mörg slysanna hafa átt sér stað þegar verið er að binda skipin eða þegar þau liggja í höfn. Athygli vekur einnig að á uppsjávarskipinu Beiti NK hefur ekkert vinnuslys orðið þrjú síðastliðin ár.
 
Ánægjulegt ar að sjá á gögnum frá Sjúkratryggingum Íslands að almennt virðist slysum um borð í skipum fara fækkandi á Íslandi.  Samkvæmt þessum gögnum frá árunum 1987 – 2015 voru fæst vinnuslys sjómanna tilkynnt á árinu 2014, 201 talsins, og næstfæst á árinu 2015 en þá voru þau 219.