Í gær fannst loðna um 20 mílur suðvestur af Látrabjargi og bendir margt til að þarna sé vestanganga á ferðinni. Um var að ræða töluvert magn og virtist loðnan á hægri suðurleið. Í gær gafst bátunum tækifæri til að kasta í stutta stund en svo versnaði veðrið ný. Reyndar var sjólag ekki gott þó kastað væri og lentu sumir bátarnir í vanda. Börkur fékk til dæmis 600 tonna kast í gær, Polar Amaroq 400 og Birtingur 200.
Í morgun var veðrið betra en í gær en áfram leiðindakvika og lentu sumir bátanna áfram í erfiðleikum þegar kastað var en aðrir fengu góðan afla. Vonast er til að veður og sjólag batni þegar líður á daginn en síðan er aftur spáð skítabrælu á morgun.
Vestangangan fær menn til að brosa og trúa því að loðnuvertíðin endi farsællega þrátt fyrir að veðurguðirnir reynist erfiðir.