Ísfisktogarinn Vestmannaey VE kom til heimahafnar í morgun með fullfermi og væntanlega mun systurskipið Bergey VE landa þar fullfermi í kvöld. Veiðar hafa gengið vel hjá báðum skipum en þessi veiðiferð hjá þeim ber þess merki að komið er að lokum kvótaárs. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að túrinn hafi verið í styttra lagi. „Við fórum út um hádegi sl. föstudag og lögðumst að bryggju um kl. 10 í morgun. Þannig að þetta var stuttur og snaggaralegur túr í blíðviðri. Það er verið að hreinsa upp restina af kvótanum á kvótaárinu sem lýkur um mánaðamótin. Við byrjuðum veiðiferðina á Pétursey og Vík og þar var fínasta kropp. Svo keyrðum við austur á Mýragrunn og fengum þar 25 tonn af ýsu á stuttum tíma og þá var farið upp á Höfða og þar fékkst einnig góður afli. Nú eigum við bara smávegis eftir af kvótanum og þá einkum þorsk og ufsa. Reynt verður að sækja það þessa daga sem eftir eru af kvótaárinu,“ segir Birgir Þór.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að þeir muni væntanlega koma til löndunar í kvöld en þegar rætt var við hann vantaði lítið upp á fullfermi. „Við byrjum túrinn á Víkinni og fengum þar gott af þorski, en síðan var haldið á Reynisdýpi og reynt við ufsa. Þá lá leiðin austur á Mýragrunn í ýsu, vestur á Höfða í þorsk og við stefnum að því að fylla á Víkinni. Það er endalaus blíða og vonandi endist það sem lengst,“ segir Jón.