Eins og lesendum heimasíðunnar er kunnugt um kom upp eldur í ísfisktogaranum Vestmannaey VE 27. október sl. þegar skipið var á leið til löndunar í Neskaupstað. Sem betur fer tókst fljótt að ráða niðurlögum eldsins en systurskipið Bergey VE tók Vestmannaey í tog ásamt því sem hafnsögubáturinn Vöttur kom á vettvang með slökkviliðsmenn úr slökkviliði Fjarðabyggðar. Komu skipin til Neskaupstaðar þar sem skemmdir voru kannaðar og reyndust þær töluverðar. Stimpilstöng hafði brotnað og gengið út úr blokk annarrar aðalvélar skipsins og eldurinn fylgt í kjölfarið.
Þegar allar aðstæður um borð höfðu verið kannaðar frekar sigldi skipið frá Neskaupstað til Vestmannaeyja á þeirri aðalvél sem heil var. Sl. miðvikudag hélt Vestmannaey síðan til Reykjavíkur þar sem viðgerð mun fara fram.
Guðmundur Alfreðsson, útgerðarstjóri Bergs-Hugins, segir að gera megi ráð fyrir að viðgerð á skipinu verði ekki lokið fyrr en í febrúar á næsta ári. Lokið er við að finna nauðsynlega varahluti sem koma frá Japan og síðustu daga hefur vélarúmið verið hreinsað og farið nákvæmlega yfir allar skemmdir. Það eru fyrirtækin Raftíðni og Framtak-stálsmiðja sem munu annast viðgerð á vélinni og vélarúminu.