Um þessar mundir eru liðin 10 ár frá því að Vestmannaey VE 444 landaði sínum fyrsta farmi í Vestmannaeyjum. Eigandi skipsins er útgerðarfélagið Bergur – Huginn ehf. sem er dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar hf. Vestmannaey var smíðuð í Póllandi árið 2007 og er svonefndur þriggja mílna bátur, 291 tonn að stærð og 29 metrar að lengd. Systurskip Vestmannaeyjar, Bergey VE 544, kom síðan nýtt til landsins í ágústmánuði sama ár. Bæði Vestmannaey og Bergey hafa reynst mikil happaskip og alla tíð aflað einstaklega vel.
Útgerðarfélagið Bergur – Huginn ehf. var stofnað í árslok 1972 í þeim tilgangi að láta smíða skuttogara í Japan og gera hann síðan út. Þessi togari kom til landsins snemma árs 1973 og bar nafnið Vestmannaey. Bergur – Huginn gerði Japanstogarann út allt til ársins 2005 ásamt fleiri skipum. Þegar Vestmannaey og Bergey komu til landsins árið 2007 urðu skipin í flota fyrirtækisins þrjú, en fyrir var Smáey VE 144. Smáey var síðan seld árið 2012 enda var kvóti félagsins ekki nægur til að unnt væri að fullnýta öll skipin.
Afli Vestmannaeyjar á þessum 10 árum er rúmlega 33.000 tonn og aflaverðmætið rúmlega 8,5 milljarðar króna. Skipstjóri frá upphafi hefur verið Birgir Þór Sverrisson. Heimasíðan sló á þráðinn um borð og ræddi við Birgi þar sem skipið var á ýsuveiðum á Síðugrunni. „ Já við erum að eltast við ýsu núna og það hefur gengið ágætlega. Annars hafa aflabrögðin verið ævintýralega góð frá því að verkfallinu lauk. Hjá okkur hafa veiðiferðirnar gjarnan verið einn og hálfur til tveir sólarhringar og sá tími hefur dugað okkur til að fá 60-90 tonn. Við höfum komið með fullan bát aftur og aftur. Hjá okkur er aflinn blandaður, en oft er uppistaðan þorskur. Það virðist vera nóg af fiski og vertíðarþorskurinn gekk á sín helstu svæði fyrr en oftast áður. Frá verkfalli höfum við fiskað tæplega 900 tonn og aflaverðmætið er um 175 milljónir króna. Þetta hefur verið veisla,“ sagði Birgir.
Þegar Birgir er spurður út í skipið og þann ágæta árangur sem náðst hefur á því á sl. 10 árum segir hann Vestmannaey hafi reynst afurða vel frá upphafi. „Skipið er frábært og það hefur fiskast vel á það frá fyrsta degi. Þetta er gott sjóskip, vinnuaðstaða um borð er góð og lestarrýmið gott. Þá er skipið afar hagstætt í rekstri. Í stuttu máli sagt þá er þetta vel lukkað skip í alla staði,“ sagði Birgir að lokum.
Systurskip Vestmannaeyjar, Bergey, hóf veiðar um fimm mánuðum á eftir Vestmannaey. Útgerð þess skips hefur verið svipuð og systurskipsins og á það hefur ávallt aflast vel. Um þessar mundir er afli Bergeyjar frá upphafi um 30.000 tonn og aflaverðmæti tæplega 8 milljarðar króna. Skipstjóri á Bergey sex fyrstu árin var Sigurður Guðbjörn Sigurjónsson en þegar hann fór í land tók Jón Valgeirsson við en Jón hafði áður verið stýrimaður á skipinu. Nánar verður fjallað um útgerð Bergeyjar þegar liðinn verður áratugur frá því hún hóf veiðar.