Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi í Þorlákshöfn sl. laugardag. Aflinn var mest þorskur og ýsa en einnig var dálítið af ufsa og löngu. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri segir að aflast hafi jafnt og vel í veiðiferðinni. „Við vorum að veiðum á Péturey og Vík, tókum eitt hol á Höfða og fengum síðan ýsu á Stokksnesgrunni. Þetta var stuttur túr en stímin voru býsna löng. Við sáum glitta í sól í túrnum og það var gleðiefni og hressti alla um borð. Hjá okkur ríkir kátína ef hitinn fer yfir 10 gráður. Við fórum út strax eftir löndun og erum nú að kroppa ágætlega á Víkinni,“ segir Birgir Þór.