Vestmannaey VE kom til löndunar í Vestmannaeyjum í morgun með fullfermi. Í afla skipsins var sandhverfa sem mun vera ein hin stærsta sem veiðst hefur hér við land. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra og spurði hann fyrst hvar fiskurinn hefði veiðst. „Við veiddum þennan fisk við Ingólfshöfða, en mér skilst að allar stærstu sandhverfur sem veiðst hafa við landið hafi einmitt veiðst þar. Sandhverfa er sjaldgæfur fiskur og stórar sandhverfur afar fágætar. Þessi fiskur fæst helst í fótreipi á grunnslóð. Við höfum stundum fengið 3-4 sandhverfur á ári en sum árin fæst engin og jafnvel sjáum við ekki þennan fisk í afla árum saman. Strax og við komum í land í Eyjum komu fulltrúar frá Hafró um borð til að mæla og vigta fiskinn og þá var það staðfest: Þetta er ein stærsta sandhverfa sem veiðst hefur við Ísland svo vitað sé. Hún reyndist vera 85 sentimetra löng, 69 sentimetrar á breidd og vigtaði 13 kíló. Mér skilst að einungis ein sandhverfa af svipaðri stærð hafi áður veiðst við landið,“ segir Birgir Þór.
Sumir matgæðingar halda því fram að sandhverfa sé besti fiskur í heimi. Um er að ræða feitan flatfisk sem selst víða háu verði.