Landað úr Vestmannaey VE í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári Geirsson

Bergey VE landaði fullfermi eða um 75 tonnum á Seyðisfirði í gær. Systurskipið, Vestmannaey VE, er að landa fullfermi í Neskaupstað í dag. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana og spurði um aflabrögðin. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, sagði að aflinn hefði að mestu verið þorskur en örlítið af ýsu hefði slæðst með. „Við byrjuðum túrinn á Tangaflakinu. Þar tókum við tvö hol og færðum okkur síðan yfir á Glettinganesflak. Þar veiddum við síðan það sem eftir var túrsins. Þarna fékkst fínasti fiskur en undir lokin bar svolítið á smærri fiski. Nú erum við komnir út á ný og erum að veiða góðan þorsk og ýsu á Tangaflakinu. Það er heldur rólegt yfir veiðinni akkúrat núna,“ segir Jón. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að veiðiferðin hafi gengið ágætlega. „Við byrjuðum á Tangaflakinu, færðum okkur yfir á Glettinganesflak og síðan í Seyðisfjarðardýpið. Aflinn er nánast eingöngu þorskur. Það bar svolítið á smáfiski á miðunum og við reyndum að forðast hann og það gekk ágætlega. Nú erum við búnir að vera í góðri törn að fiska fyrir austan land, en ráðgert er að halda til til heimahafnar í Eyjum næstkomandi mánudag“, segir Birgir Þór.