Bæði Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu í Vestmannaeyjum í gær. Skipin voru með fullfermi. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að afli skipsins hafi verið blandaður, mest af ufsa en síðan einnig skarkoli, þorskur og ýsa. „ Þða var sæmilegt veður mest allan túrinn en þó var bölvuð bræla í rúman sólarhring. Það var veitt í Sláturhúsinu og á Öræfagrunni og síðan endað í þorski á Víkinni. Það eru tíðindi að nú fer ufsinn til vinnslu hjá Vísi í Grindavík en það er í fyrsta sinn sem afli frá okkur fer þangað, enda er Vísir formlega orðinn dótturfélag Síldarvinnslunnar,“ segir Jón.
Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, segir að afli skipsins hafi verið mjög blandaður. „Þetta var karfi, ýsa, ufsi og þorskur, en mest af karfa og ýsu. Veitt var í Hornafjarðardýpinu og Breiðamerkurdýpi og síðan var dregið vestureftir í bölvaðri brælu. Um tíma var veðurhæðin um 30 metrar. Ég geri ráð fyrir að næst verði haldið austurfyrir land. Veðurspáin er einfaldlega þannig og síðan er ekki sérlega mikill fiskur við suðurströndina um þessar mundir og það kemur ekki á óvart,“ segir Egill Guðni.
Skipin munu bæði halda til veiða á ný annað kvöld.