Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði 82 tonnum í Vestmannaeyjum í gær. Um 37 tonn af aflanum var ufsi en síðan var mest af þorski og ýsu. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri sagðist vera ánægður með túrinn þegar spjallað var við hann í dag. „Þetta gekk vara býsna vel. Við byrjuðum á Pétursey og fórum austur á Höfða og síðan var farið kantana til baka. Aflinn var misjafn en við fengum ágætis glennur inn á milli. Haldið var á ný til veiða strax að löndun lokinni og við erum nú á landleið með 24 tonn eftir þrjú hol. Við vorum að nota síðasta dag kvótaársins,“ segir Birgir Þór.
Bergur VE landaði í Neskaupstað í gær að aflokinni stuttri veiðiferð. Jón Valgeirsson skipstjóri var ánægður emð aflabrögðin. „Aflinn var ýsa og þorskur sem fékkst í fimm holum. Við vorum að veiðum á Glettinganesflaki og þarna var töluvert af fiski innan um síldina,“ segir Jón. Bergur hélt á ný til veiða á miðnætti.