Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE voru báðir kallaðir inn til löndunar í Vestmannaeyjum og var landað var úr þeim á miðvikudagsmorgun. Afli Bergs var 50 tonn og afli Vestmannaeyjar 54 tonn. Ýmsir samverkandi þættir leiddu til þess að skipin voru kölluð inn og má þar nefna að mikill afli hefur borist að landi að undanförnu og fiskvinnslur með nægilegt hráefni auk þess sem Bergur þurfti að fara í árlega haffærisskoðun.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að þeir hafi verið að veiðum fyrir austan, á Glettinganesflaki og Tangaflaki, þegar kallið kom og haldið var til Eyja. „Við vorum þarna í þorski og ýsu og gekk ágætlega,“ segir Jón. Jón upplýsir að Bergur haldi til veiða á ný í dag.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að þeir hafi verið að veiðum í norðurkantinum á Glettinganesflakinu. „Þarna vorum við að fá stóran þorsk sem var fullur af síld. Hann lá þarna í síldinni. Við fengum þarna um 54 tonn á átján tímum sem er býsna gott,“ segir Birgir Þór. Vestmannaey hélt á ný til veiða í gærkvöldi.