Halstein Waage skipstjóri á norska loðnuskipinu Manon er 68 ára að aldri og er nú á sinni síðustu loðnuvertíð við Ísland. Hann kom fyrst á Íslandsmið árið 1963 þegar hann var háseti á síldarbáti en skipstjóri hefur hann verið frá árinu 1974. Allan sjómennskuferilinn hefur Halstein verið á skipum í eigu útgerðarinnar K. Halstensen A/S í Bekkjarvik í Austevoll og hann stýrði í fyrsta sinn loðnuskipi á Íslandsmiðum árið 1985. Manon landaði 320 tonnum af loðnu til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sl. föstudag og nú liggur skipið með 500 tonn og bíður löndunar. Halstein segir að vertíðin nú sé afar góð og vel hafi gengið að veiða loðnu í nótina að undanförnu, en fyrst eftir að norsku skipin komu á miðin í janúar hafi loðnan staðið djúpt og því erfitt að ná henni í nót. „Við höfum séð mikla loðnu að undanförnu og það hefur gengið afar vel hjá norsku bátunum sem hingað hafa komið til veiða. Af 55 norskum bátum er 21 búinn með kvótann og margir við það að klára. Við erum til dæmis búnir með kvótann okkar núna. Loðnan er á stóru svæði um þessar mundir og í okkar síðasta túr voru 25 mílur á milli þeirra nótaskipa sem voru syðst og þeirra sem voru nyrst og öll voru þau að fiska vel. Síðan voru skip að veiða í troll enn norðar. Nýverið voru reyndar bátar að fá góð köst norður við Grímsey á sama tíma og við vorum að fiska vel hér fyrir austan. Það er ekki hægt annað en að vera ánægður með þessa vertíð“, sagði Halstein.
Halstein segir að það þurfi ekki að stoppa lengi á miðunum til að ná þann afla sem menn vilja fá. „Skipin eru að fá upp í 900 tonna köst og það verður að gæta sín að fá ekki of mikið. Það kom til greina að sigla með þann afla sem við erum með til Noregs en vegna veðurútlits var ákveðið að landa í Neskaupstað. Það sem helst veldur vandræðum á miðunum eru hvalir. Það er gríðarlegur fjöldi hvala þarna og þeir hafa valdið miklum skemmdum á veiðarfærum hjá mörgum skipanna. Fjölgun hvala hlýtur að vera mikið umhugsunarefni, ekki bara á Íslandi heldur einnig í Noregi“, sagði Halstein Waage að lokum.
Manon kemur til með að landa í Neskaupstað annað kvöld en nú er verið að landa 300 tonnum úr Havsnurp og nýbúið er að landa 500 tonnum úr Nordervon. Þá bíða einnig löndunar í Neskaupstað Slaatterøy, Birkeland, en hvor þeirra er með 500 tonn.
Loðnuvinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar gengur afar vel og eru sólarhringsafköst 550 tonn. Loðnan er stór og góð og flokkast sáralítið frá í vinnslunni. Þegar þau skip sem nú bíða löndunar hafa lokið löndun hafa um 3.700 tonn af loðnu komið til vinnslu í fiskiðjuverið.
Mikil örtröð er í Norðfjarðarhöfn þessa dagana, en auk norsku skipanna er þar verið að landa kolmunna og loðnu úr vinnsluskipum. Þá liggur þar flutningaskip sem er að lesta frystar afurðir.