Ágætu starfsmenn, nú erum við að upplifa mjög sérstaka tíma. Nýr og bráðsmitandi sjúkdómur herjar á heimsbyggðina og þjóðirnar reyna eftir fremsta megni að hefta útbreiðslu hans. Sjúkdómurinn virðist ekki vera mjög hættulegur heilbrigðu fólki, en eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma getur veikst alvarlega og jafnvel látist af völdum veirunnar. Þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til svo að stemma megi stigu við útbreiðslu sjúkdómsins fylgja svo neikvæð efnahagsleg áhrif sem eflaust eiga eftir að valda ýmis konar vandræðum næstu misserin.
Við stöndum öll frekar vanmáttug frammi fyrir þessum vágesti sem nú herjar á. Það er ljóst að nú þegar hefur líf okkar verið sett í gíslingu veirunnar. Fyrirtæki eins og okkar eru öll komin í ákveðna varnarbaráttu. Það er brýnt að snúa bökum saman í þessum slag og fara í einu og öllu eftir þeim leiðbeiningum og reglum sem okkur eru settar. En að sama skapi verðum við að sýna ábyrgð og láta hlutina ekki stoppa.
Þetta er því mikið alvörumál og af því tilefni vil ég koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri:
- Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að forðast smit. Ég vil því að allir starfsmenn kynni sér þær varúðarráðstafanir sem eru í gildi á hverjum tíma og fylgi þeim í einu og öllu. Þær varrúðarráðstafanir sem nú eru í gildi hafa verið kynntar á heimasíðunni og á starfsstöðvum, en einnig má skoða leiðbeiningar á www.covid.is.
- Það skiptir miklu máli fyrir okkur að halda fyrirtækinu gangandi. Það er þjóðhagslega mikilvægt því tekjur Íslendinga af sjávarafurðum hafa mikið vægi og verða lykilþáttur í því að vinna okkur út úr þeirri efnahagslægð sem væntanleg er í kjölfar sjúkdómsins. Þá verðum við að viðhalda þeim tengslum sem byggð hafa verið upp við viðskiptavini okkar erlendis.
- Á þessum tímapunkti er óljóst í hvaða átt mál munu þróast. En við ætlum að sigla í gegnum þetta saman. Síldarvinnslan mun standa við bakið á sínum starfsmönnum, við munum aðlaga okkur að þeim aðstæðum sem upp koma. Með samstöðu, dugnaði og umfram allt skynsamlegum ákvörðunum tökum við þennan slag.
- Það er mikil óvissa á mörkuðum okkur, og breytast aðstæður þar dag frá degi, því er mikilvægt að vera á tánum og aðlaga veiðar og vinnslu þessum sveiflum.
- Það er mikilvægt að við förum varlega hvort sem er í vinnu eða einkalífi. Við verðum að fylgja ítrustu varúðarráðstöfunum í öllum okkar daglegu störfum.
Ég vil þakka ykkur öllum fyrir að taka þátt í baráttunni við þennan vágest og undirstrika þá trú mína að við munum komast í gegnum þetta í sameiningu. Við höfum breytt ýmsu í okkar rekstri og á okkar vinnustöðum, en allar okkar aðgerðir miða að því að tryggja öryggi starfsmanna. Bið ég í lokin hvern og einn að haga öllum sínum störfum og samskiptum með þeim hætti að draga úr sýkingarmöguleikum og útbreiðslu veirunnar.
Ég vil biðja alla utanaðkomandi aðila og viðskiptivini okkar að virða þær umgengnisreglur sem settar hafa verið og nota tölvupóst og síma til samskipta.
Frekari ráðstafanir til að koma í veg fyrir smit og tryggja að starfsemi stöðvist ekki verða kynntar jafnóðum og þær verða mótaðar, en við erum með starfandi viðbragðshóp sem fundar á hverjum degi og fer yfir stöðuna í hverri deild félagsins.
Gunnþór Ingvason