Makríl- og síldarvertíðin hefst óvenju seint hjá Síldarvinnslunni í ár miðað við síðustu ár. Ástæðurnar eru tvær: Í fyrsta lagi er síldarkvótinn minni en verið hefur og í öðru lagi vilja menn bíða þess að makríllinn fitni og verði betra hráefni til manneldisvinnslu. Nú er hins vegar ballið að byrja og unnið af krafti að gera allt klárt í fiskiðjuverinu fyrir vertíðina.
Í vor voru ráðnir um 20 nýir starfsmenn í fiskiðjuverið og einnig til að sinna ýmsum umhverfisverkefnum. Nú, þegar settar verða á vaktir vegna makríl- og síldarvinnslu, þarf að ráða álíka fjölda til viðbótar. Auglýst var eftir starfsfólki í síðustu viku og að sögn Hákonar Viðarssonar starfsmannastjóra voru viðbrögð góð við auglýsingunni og hafa borist margar atvinnuumsóknir. Þessa dagana er verið að fara í gegnum umsóknirnar og verður gengið frá ráðningum fyrir helgina.
Í upphafi vertíðarinnar verður unnið á þrískiptum vöktum í fiskiðjuverinu en í haust verður vaktakerfinu breytt og teknar upp tvískiptar vaktir.