viðbygging

Framkvæmdir við stækkun fiskiðjuversins. Ljósm: Smári Geirsson

Stefnt er að því að auka afköst fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og eru yfirstandandi byggingaframkvæmdir norðan við verið liður í þeim áformum. Viðbyggingin sem nú er að rísa er um 1000 fermetrar að stærð. Með tilkomu hennar mun vinnslurými versins stækka en í tengslum við framkvæmdirnar mun eldra húsnæði verða breytt þannig að rými eykst fyrir frystipressur. Þessi nýja bygging er með svipuðu sniði og og pökkunarstöðin sem byggð var við fiskiðjuverið í fyrra en hún er einnig 1000 fermetrar að stærð.

Það er Mannvit sem hefur hannað viðbygginguna og annast eftirlit með framkvæmdum. Aðalverktaki er Nestak hf. en Haki ehf. annaðist jarðvegsframkvæmdir og Fjarðalagnir sjá um lagnavinnuna.

Framkvæmdir við viðbygginguna hófust um mánaðamótin maí-júní og er áformað að þeim ljúki seint á haustmánuðum.