

Síðastliðin fimmtudag kom flugvélin í góðar þarfir. Vestmannaey var að landa í Eyjum og þá kom í ljós að síðuloki í skipinu var bilaður. Engan slíkan loka var að fá í Eyjum og hafði Guðmundur þá samband við fyrirtækið Set á Selfossi og kom strax í ljós að þar var til loki. Guðmundur samdi við starfsmann hjá Set um að hann yrði kominn með lokann út á Selfossflugvöll eftir 20 mínútur. Þvínæst settist hann upp í flugvélina og það stóð heima að flugvélin lenti á flugvellinum um líkt leyti og starfsmaðurinn kom þangað með lokann. Síðan var flogið rakleiðis til Eyja með lokann og hann settur í skipið. „Það tók einungis um klukkustund að útvega skipinu nýjan loka og vegna þess að unnt var að fljúga og sækja hann tafðist það ekkert frá veiðum. Þetta sýnir vel að það getur borgað sig að hafa flugvél við hendina í Vestmannaeyjum þegar upp koma tilvik sem þetta,“ segir Guðmundur.
