Minningareitur Síldarvinnslunnar á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar var vígður við hátíðlega athöfn í gær. Það rigndi fram eftir degi en þegar leið að vígsluathöfninni stytti upp og fór vígslan fram í góðu veðri. Að lokinni athöfninni var öllum gestum boðið upp á kaffiveitingar í Safnahúsinu í Neskaupstað. Margt fólk sótti athöfnina og voru þar á meðal margir aðstandendur þeirra sem látist hafa í störfum fyrir Síldarvinnsluna.
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, setti athöfnina og greindi frá aðdraganda þess að minningareiturinn var gerður. Kom fram í máli hans að fyrirtækið vildi minnast þeirra sem látið hafa lífið í störfum hjá því með veglegum hætti og ætti minningareiturinn að vera fallegur og friðsæll staður sem fólki þætti vænt um og bæri virðingu fyrir. Þá væri einnig unnt að fræðast um sögu fyrirtækisins með því að heimsækja reitinn.
Hlífar Þorsteinsson fékk það hluverk að vígja reitinn en hann er einn helsti hvatamaðurinn að gerð hans. Hlífar missti föður sinn í hörmulegu slysi 17. júlí árið 1958, sama dag og Síldarvinnslan tók fyrst á móti hráefni til vinnslu. Hlífar greind meðal annars í máli sínu frá þessu hörmulega slysi og hvers virði minningareiturinn væri fyrir aðstandendur þeirra sem látið hafa lífið í starfi hjá fyrirtækinu.
Að loknu máli Hlífars tóku prestarnir séra Benjamín Hrafn Böðvarsson og séra Bryndís Böðvarsdóttir til máls og blessuðu reitinn.
Undir lok vígsludagskrárinnar afhenti Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar, Heilbrigðisstofnun Austurlands 11 milljón króna styrk. Kom fram í máli Þorsteins að Síldarvinnslan hefði ávallt lagt sitt af mörkum til að tryggja að innviðir samfélagsins væru sem traustastir og þar skipti heilbrigðisþjónustan miklu máli. Í tilefni af vígslu minningareitsins vildi fyrirtækið veita heilbrigðisstofnuninni umræddan styrk til tækjakaupa.
Á milli dagskráratriða sáu Daníel Arason, Bjarni Freyr Ágústsson og Rannveig Júlía Sigurpálsdóttir um tónlistaratriði og var flutningur þeirra til að auka á þann hátíðarbrag sem einkenndi vígsluathöfnina.
Unnt er að horfa á upptöku af vígsluathöfninni hér.