Jón Már Jónsson formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar undirrita viljayfirlýsingunaJón Már Jónsson formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar undirrita viljayfirlýsingunaÍ gær var undirrituð viljayfirlýsing Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda sem felur í sér aukna möguleika fiskimjölsverksmiðja til að nýta endurnýjanlega orku í stað olíu. Á undanförnum árum hefur verið unnið að rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og hafa þær keypt skerðanlegt rafmagn frá raforkusölum sem Landsvirkjun hefur selt á heildsölumarkaði. Framboð á slíku rafmagni hefur oft verið takmarkað og eins hefur eftirspurn eftir því verið sveiflukennd. Því hefur oft reynst nauðsynlegt að nýta olíu sem aflgjafa í verksmiðjunum.
 
Það voru Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Jón Már Jónsson formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda sem undirrituðu viljayfirlýsinguna í nýuppgerðu Marshallhúsi í Reykjavík. Með henni er mörkuð sú skýra stefna að nýta raforku í auknum mæli í fiskimjölsiðnaðinum og gera hann umhverfisvænni. Með aukinni notkun rafmagns og minni notkun á olíu í verksmiðjunum er dregið úr losun koltvísýrings og þar með stuðlað að því að skuldbindingar Íslands á sviði loftslagsmála náist.
 
Í viljayfirlýsingunni lýsir Landsvirkjun því yfir að fyrirtækið muni á næstu árum stuðla að auknu framboði á skerðanlegu rafmagni á heildsölumarkaði og það rafmagn mun þá standa fiskimjölsframleiðendum til boða. Tekið er fram að framboð á slíku rafmagni muni þó ráðast af aðstæðum í vatnsbúskap hverju sinni og getur því sætt takmörkunum. Olía þarf því áfram að vera varaaflgjafi í fiskimjölsverksmiðjunum. Um leið og Landsvirkjun hyggst bjóða upp á aukið skerðanlegt rafmagn lýsir Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda því yfir að það ætlar að stuðla að því að starfsemi verksmiðjanna verði gerð eins umhverfisvæn og kostur er og skerðanlegt rafmagn verði notað í eins ríkum mæli og unnt er í stað olíu.
 
Nú mun um 75% af orkuþörf fiskimjölsverksmiðja vera rafvædd og er álitið raunhæft að það hlutfall geti farið upp í 85%. Til þess að ná fullri rafvæðingu þarf hins vegar að koma til verulegra fjárfestinga í flutningskerfi raforku í landinu.
 
Jón Már Jónsson, formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda, segir að þessi viljayfirlýsing sé stórt skref í þá átt að takast megi að fullnýta þá fjárfestingu í rafvæðingu verksmiðjanna sem þegar hefur verið ráðist í. Yfirlýsingin gerir það að verkum að hans mati að félagið getur með góðri samvisku hvatt félagsmenn sína til að nota umhverfisvænt skerðanlegt rafmagn umfram olíu. Þá vildi Jón Már þakka Landsvirkjun góða samvinnu við gerð yfirlýsingarinnar og sagðist vona að andinn sem ríkti við gerð hennar næði til allra þeirra aðila sem kæmu að sölu á rafmagni til verksmiðjanna. Benti Jón Már á að verksmiðjurnar hefðu náð miklum árangri á þessu sviði á undanförnum árum. „Sem dæmi má nefna að á árinu 2007 tóku verksmiðjurnar á móti 755 þúsund tonnum af hráefni og notuðu 28 milljónir lítra af olíu. Á árinu 2015 tóku þær á móti 780 þúsund tonnum af hráefni en þá voru einungis notaðir 11,5 milljón lítrar af olíu en þeim mun meira af endurnýjanlegri og umhverfisvænni orku,“ sagði Jón Már að lokum.