Gullver NS kemur að landi í mun betra veðri en var sl. nótt. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í nótt í vitlausu veðri. Afli skipsins er 106 tonn, að mestu þorskur. Heimasíðan ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Hún gekk alveg þokkalega. Það er ekki hægt að kvarta yfir veiðinni en hins vegar er veðrið umkvörtunarefni. Við fórum út á fimmtudagskvöld og vorum að veiðum á Breiðdalsgrunni, á Fætinum og á Gerpistotunni. Það er varla nokkurn tímann friður hvað veður áhrærir og þannig hefur það verið frá áramótum. Á sunnudaginn var til dæmis varla veiðiveður. Við ætluðum að vera komnir í land áður en stórviðrið sem spáð var skylli á en það kom heldur snemma. Það var allt í lagi að sigla að landi en þegar við vorum komnir inn á Seyðisfjörð gerði snarvitlaust veður. Vindmælirinn hjá okkur á skipinu sýndi 40 metra og síðan fauk hann líklega af skipinu en við erum að fara að kanna það. Það gekk erfiðlega að leggjast að bryggjunni en nú er verið að landa úr skipinu,“ segir Þórhallur.

Í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði gengur vinnsla vel en þó er þar verið að glíma við covid eins og víðar. Nú eru 11 starfsmenn smitaðir og eðlilega hefur það einhver áhrif á starfsemina.

Áformað er að Gullver haldi á ný til veiða annað kvöld.