Vinningshópurinn að störfum. Ljósm. Margrét Þórðardóttir.Í Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar þurftu nemendur að skila hópverkefni. Fengu hóparnir ráðrúm til að ljúka verkefnum sínum eftir að skóla lauk en þeim þurfti að skila í síðasta lagi hinn 15. ágúst. Hóparnir voru fimm talsins og skiluðu þeir allir verkefnum sínum á tilsettum tíma. Þremur verkefnanna var skilað í formi veggspjalda, einu í formi ritgerðar og einu í stafrænu formi.

Verkefnin sem hóparnir völdu sér voru af ýmsum toga. Einn hópurinn tók viðtöl við einstaklinga sem höfðu reynslu af ýmsum þáttum sjávarútvegs á meðan annar fjallaði um þær breytingar sem orðið hafa á sjómennsku frá miðri síðustu öld og gerði einnig sjómennsku kvenna nokkur skil. Þriðji hópurinn tók síldarævintýrið fyrir og sá fjórði fjallaði um nýsköpunartogarann Egil rauða NK. Fimmti og síðasti hópurinn gerði grein fyrir ýmsum tegundum veiðarfæra og notkun þeirra.

Gefið hafði verið út að besta verkefnið yrði verðlaunað og því þurfti að fara fram mat á þeim. Tvö verkefnanna þóttu standa upp úr og vera áberandi best; annars vegar verkefnið um veiðarfærin og hins vegar verkefnið um Egil rauða. Að lokinni nákvæmri skoðun varð niðurstaðan sú að verkefnið um Egil rauða bæri sigur úr býtum.

Vinningsverkefnið var vel og skipulega unnið og gaf góða mynd af viðfangsefninu. Greint var frá skipinu, sögu þess og hvaða áhrif útgerð þess hafði á norðfirskt atvinnulíf. Þá var ítarlega fjallað um örlög skipsins, en Egill rauði fórst undir Grænuhlíð við Ísafjarðardjúp hinn 26. janúar 1955. Hópurinn sem vann vinningsverkefnið var skipaður eftirtöldum nemendum: Birki Frey Andrasyni, Halldóru Rún Sófusdóttur, Kötlu Heimisdóttur, Maríu Rún Karlsdóttur, Særúnu Birtu Eiríksdóttur og Þorvaldi Marteini Jónssyni.