Síld landað úr Margréti EA í mrogun. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Áfram er unnin íslensk sumargotssíld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað af fullum krafti. Margrét EA kom með 1300 tonn að vestan í gær og Beitir NK kemur með um 1000 tonn síðar í dag. Nú er síldarkvóti Síldarvinnsluskipanna langt kominn og gert er ráð fyrir að gert verði hlé á veiðunum fram í desember.

Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins, segir að vel gangi að vinna síldina en um þessar mundir er mest af henni heilfryst og framleidd svonefnd samflök eða flapsar. „Síldin er hið besta hráefni í alla staði. Þessi framleiðslutörn er orðin alllöng. Fyrsti síldarfarmurinn að vestan barst til okkar þann 24. október en þá var veiðum á norsk-íslenskri síld austur af landinu að ljúka. Nú eru komin til okkar um 16.000 tonn af íslenskri sumargotssíld,“ segir Geir Sigurpáll.

Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, í morgun en þá var skipið statt við Papey. „Þessi túr gekk býsna vel. Við fengum aflann, um 1000 tonn, í þremur holum um 70 mílur suðvestur af Malarrifi. Þetta er sama góða síldin og verið hefur og þetta er síðasti síldartúr hjá okkur í bili,“ sagði Tómas.