Vinnsla á makríl hófst í fiskiðjuverinu í Neskaupstað sl. laugardag. Þá kom Beitir með 550 tonna afla sem fékkst í Hvalbakshallinu í 4 holum. Þegar lokið var við að landa úr Beiti hófst löndun úr Berki sem kom með 450 tonn af sömu veiðislóð. Í sumum holanna var hreinn makríll en í einhverjum þeirra var aflinn síldarblandaður.
Bjarni Ólafsson AK er væntanlegur til Neskaupstaðar í dag með 380 tonn þannig að vertíðin fer vel af stað.
Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að það sé afar gott að vertíðin skuli vera hafin og vinnslan gangi vel strax í upphafi. „Fiskurinn er í reynd nákvæmlega eins og við reiknuðum með þannig að þetta er allt samkvæmt áætlun“, sagði Jón Gunnar.