Vinnsla á makríl og síld er hafin af fullum krafti í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og gengur vel. Beitir NK kom með 450 tonn af blönduðum afla til vinnslu í gær en áður hafði álíka farmur úr Berki NK verið unninn. Makríllinn er hausskorinn, slógdreginn og frystur en síldin er flökuð og fryst.
Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar verksmiðjustjóra er hér um gott hráefni að ræða og ljóst að stærri makríll en sá sem veiddist í upphafi vertíðar er að ganga á miðin við landið.
Jóni Gunnari líst vel á vertíðina og er þess fullviss að hún sé hafin fyrir alvöru og samfelld vinnsla sé framundan.