Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Beiti, segir að makrílskipin hafi að undanförnu orðið vör við mikla síld út af Austfjörðum þannig að full ástæða sé til að ætla að veiðarnar muni ganga vel. „Við höfum séð mikla síld út af Héraðsflóa og á grunnunum hér fyrir austan. Þetta er meiri síld á þessum slóðum en oftast áður. Við munum sennilega byrja að kanna svæðið hérna beint úti enda hafa einhver skip verið að veiðum síðustu daga í Norðfjarðar- og Reyðarfjarðardýpi. Ef ástæða er til munum við síðan leita austar. Við stefnum að því að koma með góðan afla til vinnslu á mánudagsmorgun. Það ætti að geta gengið,“ sagði Hálfdan.