Vinnsla á síld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.Vinnsla á íslenskri sumargotssíld hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í síðustu viku og hefur hún gengið vel. Síldin hefur reynst stærri og betri en á síðustu vertíð en hún er bæði heilfryst og flökuð. Þá hefur ekki orðið vart við nýja sýkingu í síldinni og er sýkingarvandi síðustu vertíða á hröðu undanhaldi. Segja má því að vertíðin hafi farið ágætlega af stað og nú bíða menn þess að síldin þétti sig í miklu magni á Breiðafirðinum.