Ísfisktogarinn Gullver NS hefur verið að fiska ágætlega að undanförnu. Hann landaði 114 tonnum í Neskaupstað sl. sunnudag og í gær landaði hann 60 tonnum á Seyðisfirði að afloknum stuttum túr. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að einmunablíða hafi verið á miðunum í sumar en sumarið hafi þó komið dálítið seint. „Það er afar þægilegt að veiða í svona blíðu. Vel hefur aflast en við höfum mest verið á Papagrunni. Vandinn hefur verið sá að það er alltof mikið af ýsu á miðunum. Við höfum verið á flótta undan ýsunni. Ég geri ráð fyrir að nú verði farið að veiða þorsk í ríkari mæli en verið hefur því brátt líður að því að frystihúsinu á Seyðisfirði verði startað að loknu sumarfríi,“ segir Steinþór.
Ómar Bogason, rekstrarstjóri frystihússins á Seyðisfirði, segir að ráðgert sé að hefja vinnslu í húsinu að afloknu fjögurra vikna fríi nk. þriðjudag. „Fólk er að tínast á staðinn og allt að verða klárt til að byrja á ný,“ segir Ómar.