Í gær hófst vinnsla í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði að lokinni rúmlega mánaðar sumarlokun. Róbert Ingi Tómasson framleiðslustjóri segir að fólk hafi mætt hresst og kátt til starfa. „Það er ekki alveg fullmannað hjá okkur strax og það tekur ávallt einhvern tíma að snúa öllu í gang. Við byrjum á að vinna ufsa, sem kom úr Bergi VE, og síðan þorsk, sem Gullver NS kom með. Þetta lítur allt ljómandi vel út,“ segir Róbert.
Gullver landaði 86 tonnum á Seyðisfirði í gær eftir að hafa verið eina fjóra daga á veiðum. Heimasíðan ræddi við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra og spurði fyrst um samsetningu aflans. „Um helmingur aflans er þorskur en síðan er þetta, karfi, ýsa og ufsi. Það aflaðist alveg sæmilega. Við vorum að veiða á okkar hefðbundnu slóðum, á Fætinum, Hvalbakshalli, Berufjarðarál, Papagrunni og Lónsbugt. Það verður haldið á ný til veiða í kvöld,“ segir Steinþór.