Vinnsla á makríl í fiskiðjuverinu í Neskaupstað hófst í gærkvöldi að afloknu verslunarmannahelgarfríi starfsfólksins. Það var Margrét EA sem þá var komin að landi með 900 tonn. Börkur NK hélt til veiða á sunnudag og kom inn í morgun með 840 tonn sem fengust í tveimur holum. Beitir NK lét úr höfn í gær en bíður með að hefja veiðar og Bjarni Ólafsson AK liggur enn í höfn í Neskaupstað.
Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, sagði í samtali við heimasíðuna að veiðiferð skipsins hefði gengið afar vel. „Við tókum þennan afla í tveimur holum. Tókum eitt hol á sunnudag og eitt í gær. Í fyrra holinu fengum við 600 tonn sem er of mikið, en í seinna holinu var dregið í 45 mínútur og þá fengust 240 tonn. Við hittum í bæði skiptin í góða torfu og segja má að þetta hafi verið algjör lúxus. Þarna var vaðandi fiskur víða og býsna líflegt. Ég sé að nú eru bátarnir komnir töluvert sunnar en þeir voru. Það er ekki óalgengt að torfurnar týnist og þá þarf að finna nýjar. Ég geri ráð fyrir að byrjað verði að landa úr Berki um miðnætti en þá ætti að vera búið að vinna úr Margréti,“ sagði Hjörvar.