Starfsfólk frystihússins er ánægt með að hefja störf að nýju. Ljósm. Ómar Bogason

Frá því var greint að sl. fimmtudagsmorgun hafi vinnsla hafist í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði eftir skriðuföllin. Það stóð ekki lengi því húsið var rýmt eftir hádegi sama dag. Í gær var haldinn fundur með starfsfólkinu þar sem rætt var um stöðu mála í kjölfar hamfaranna. Á fundinum voru fulltrúar frá lögreglunni, sveitarfélaginu Múlaþingi, almannavörnum og veðurstofunni auk fulltrúa frá Síldarvinnslunni. Farið var yfir stöðu mála með starfsfólkinu bæði á íslensku og ensku og fólk meðal annars frætt um öll öryggismál. Ómar Bogason hjá frystihúsinu segir að fundurinn hafi tekist vel og nú sé allt ljósara í hugum starfsfólksins en áður. „Í málum sem þessum skiptir öllu máli að fólk fái haldgóðar og réttar upplýsingar,“ segir Ómar.

Vinnsla hófst enn á ný í frystihúsinu í morgun og að sögn Ómars er fólk miklu rólegra eftir upplýsingafundinn.

Gert er ráð fyrir að fljótlega verði birt nýtt ofanflóðahættumat fyrir Seyðisfjörð og munu þá umræður hefjast um ráðstafanir til lengri tíma á staðnum.