Ávallt er full starfsemi í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Að sögn Ómars Bogasonar rekstrarstjóra er húsið nánast fullmannað og enginn skortur á hráefni. „Við höfum að undanförnu mest verið að frysta á Ameríku og Evrópu en upp á síðkastið hefur heldur lágt verð verið á mörkuðum fyrir ferskan fisk. Vinnslan gengur vel enda höfum við verið að fá frábært hráefni. Við höfum mest verið að vinna þorsk og höfum fengið fisk af Eyjunum, Vestmannaey VE og Bergey VE, og síðan hefur fiskur einnig verið keyptur á mörkuðum. Heimaskipið Gullver NS hefur verið í togararalli og því hefur ekki komið hráefni frá honum, en rallinu lauk í gærkvöldi þannig að brátt fer hann að færa okkur fisk eins og hann hefur gert. Ég get ekki annað sagt en staðan hjá okkur sé býsna góð og auk þess er vor í lofti,“ segir Ómar.
Í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði starfa 35 manns og er það stærsti vinnustaðurinn í bænum.