Starfsfólk fiskvinnslustöðvar Gullbergs ehf. á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BorgasonStarfsfólk fiskvinnslustöðvar Gullbergs ehf. á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÞað sem af er þessu ári hefur vinnslan í fiskvinnslustöð Gullbergs ehf. á Seyðisfirði gengið afar vel og hafa 725 tonn verið unnin til þessa. Í síðustu viku var unnið úr tæplega 100 tonnum af fiski sem komu frá Gullver NS, Vestmannaey VE, Bergey VE, Björgvin EA og Björgúlfi EA.
 
Á þessu ári hefur mest verið unnið af þorski í fiskvinnslustöðinni en nú fer að líða að því að áhersla á ufsavinnslu muni aukast. Ufsaveiði hefur verið að glæðast að undanförnu úti fyrir Suðurlandi.
  
Síldarvinnslan festi kaup á fiskvinnslustöðinni og togaranum Gullver NS í lok árs 2014 og síðan hafa umsvif starfseminnar aukist mikið. Á árinu 2015 tók fiskvinnslustöðin á móti tæplega 3.400 tonnum til vinnslu og var það aukning á mótteknu hráefni frá árinu áður um rúmlega 83%.