Útskipun á frystum afurðum í Neskaupstað.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirÞað sem af er yfirstandandi makríl- og síldarvertíð hafa vinnsluskip landað rúmlega 4000 tonnum af frystum makríl og síld í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Skipin sem um ræðir eru Vilhelm Þorsteinsson EA, Hákon EA og Kristina EA. Að auki taka frystigeymslurnar á móti framleiðslu fiskiðjuversins í Neskaupstað.

Að sögn Heimis Ásgeirssonar yfirverkstjóra hefur litlu verið skipað út af frystum afurðum frá yfirstandandi vertíð. Fyrr í vikunni tók þó skip 500 tonn til Sankti Pétursborgar og nú er verið að skipa út 2800 tonnum af frystum afurðum í skip sem fer til Svartahafsins en þar er að mestu um að ræða loðnu frá síðustu loðnuvertíð. Fyrsta alvöru útskipunin með afurðum yfirstandandi vertíðar verður í skip sem kemur eftir helgi. Það mun taka 4500 tonn og sigla með það til Nígeríu.