Útskipun á makríl og síld í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ViðarssonÁ yfirstandandi makríl- og síldarvertíð hafa vinnsluskip landað um 18.000 tonnum af frystum afurðum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Það eru einkum þrjú skip sem fært hafa þennan afla að landi; Vilhelm Þorsteinsson EA, Kristina EA og Hákon EA. Hákon hefur landað þrisvar sinnum en skipið hóf veiðar seint vegna þess að unnið var að breytingum á því. Að sögn Heimis Ásgeirssonar yfirverkstjóra í frystigeymslunum er vertíðin enn í fullum gangi og er von á Vilhelm Þorsteinssyni og Kristinu til löndunar eftir helgina.

Auk þess að taka á móti afla vinnsluskipanna eru afurðir fiskiðjuversins einnig geymdar í frystigeymslunum þannig að mikið magn fer í gegnum þær. Mest af hinum frystu afurðum fer um borð í flutningaskip í Norðfjarðarhöfn en hluti af þeim er fluttur landleiðina í gámum til Reyðarfjarðar þar sem þeir fara um borð í skip. Að sögn Heimis er von á tveimur skipum til Neskaupstaðar á næstunni til að lesta frystar afurðir. Annað þessara skipa mun taka 3000 tonn til Afríku og er það stærsta skip sem nokkru sinni hefur komið inn í Norðfjarðarhöfn, 150 metra langt.