Heimir Ásgeirsson fylgist með útskipun á frystum afurðum. Ljósm. Hákon ErnusonHeimir Ásgeirsson fylgist með útskipun á frystum afurðum.
Ljósm. Hákon Ernuson
Vinnsluskipin Vilhelm Þorsteinsson EA og Hákon EA hafa landað 6.950 tonnum af frystum afurðum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað það sem af er yfirstandandi makríl- og síldarvertíð. Vilhelm hefur landað 3.850 tonnum og Hákon 3.100 tonnum. Til viðbótar hefur síðan verið tekið á móti allri framleiðslu fiskiðjuversins í frystigeymslunum. Heimir Ásgeirsson yfirverkstjóri í frystigeymslunum segir að þar hafi verið miklar annir að undanförnu. „Það hefur verið mikið álag á mönnum udanfarnar vikur. Það hefur ekki verið óalgengt að löndun og útskipun fari fram á sama tíma og stundum hafa tvö skip lestað afurðir samtímis í höfninni. Þá hafa verið miklir flutningar á frystum afurðum í gámum til Reyðarfjarðar en þar fara þeir í skip. Í ágústmánuði hafa farið frá okkur rúmlega tíu þúsund tonn, um 7.000 tonn hafa farið í skip og um 3.000 hafa farið í gámum. Alls höfum við sent frá okkur 120 gáma í ágúst. Það lítur allt út fyrir að áframhald verði á þessu því fleiri skip eru væntanleg og ekkert lát verður á gámaflutningunum,“ sagði Heimir.