DSC03792

Tveir þriðju loðnuflotans frysta nú loðnu á Norðfirði. Ljósm: Hákon Ernuson

Vinnsluskipin Polar Amaroq og Vilhelm Þorsteinsson EA liggja nú inni á Norðfirði og frysta loðnu. Bæði skipin eru að fylla frystilestarnar og mun verða byrjað að landa úr Vilhelm Þorsteinssyni í kvöld og Polar Amaroq á morgun. Þessi tvö skip mynda meirihluta loðnuflotans sem veiðir nú við landið en norska skipið Fiskebas er við veiðar á miðunum. Geir Zoëga skipstjóri á Polar Amaroq sagði að það hefði þurft að hafa lítið fyrir því að ná í aflann í veiðiferðinni. „Við vorum norðnorðaustur úr Langanesi, um 20 mílum vestar en áður, og þetta gekk eins og í sögu. Við tókum bara tvö hol og drógum samtals í fimm klukkutíma. Það voru 400 tonn sem fengust í fyrra holinu og 270 í því seinna. Það er ekki hægt að hugsa sér þetta mikið betra,“ sagði Geir.