Kolmunnaveiðar. Ljósm: Helgi Freyr Ólason
Að gefnu tilefni verður hér farið yfir nokkra útreikninga sem tengjast gjöldum vegna kolmunnaveiða íslenskra og færeyskra skipa. Í gær var birtur pistill hér á heimasíðunni þar sem fjallað var um þá umræðu sem nú á sér stað um veiðigjald á kolmunna og þann samanburð sem gerður hefur verið á tekjum íslenska ríkisins og hins færeyska af kolmunnaveiðum. Því hefur blákalt verið haldið fram að tekjur færeyska ríkisins séu 83% hærri en tekjur hins íslenska af hverju kolmunnakílói sem veitt er. Þarna er borið saman fyrirhugað veiðigjald á Íslandi og það verð sem fékkst fyrir veiðiheimildir í kolmunna sem boðnar voru upp í Færeyjum. Uppsláttur um þetta efni hefur sést í íslenskum fjölmiðlum en sannast sagna er umfjöllun þeirra afar villandi og fjarri því að vera vönduð. Þegar fjallað er um mál eins og þetta verður að taka tillit til margra þátta og voru nokkrir þeirra nefndir í pistlinum sem birtist hér á heimasíðunni í gær. Þar var meðal annars vakin athygli á því að einungis lítill hluti kolmunnakvótans er boðinn upp í Færeyjum (14%) og að ýmis gjöld sem íslensk útgerð greiðir fyrirfinnast ekki í Færeyjum. Í því sambandi má nefna að kolefnisgjaldið sem íslensk skip greiða er ekki greitt í Færeyjum. Þá var bent á að launatengd gjöld eru mun hærri á Íslandi en í Færeyjum og munar þar til dæmis mikið um tryggingagjaldið og lífeyrisgreiðslur. Þá var vakin athygli á því að tilkostnaður íslenskra útgerða er mun meiri en færeyskra við kolmunnaveiðarnar einfaldlega vegna þess að þær þurfa að sækja lengra. Einnig ber að hafa í huga að möguleikar Færeyinga til að selja á Rússland hefur áhrif á afkomu veiðanna og þá um leið gjaldtökuna.
Rétt er líka að vekja athygli á einum grundvallarmun á greiðslu veiðigjaldsins í Færeyjum og á Íslandi; heimilt er í Færeyjum að draga kostnað vegna veiðigjalds eða kaupa á uppboðsheimildum frá óskiptu aflaverðmæti. Með öðrum orðum þá er stór hluti af veiðigjaldinu tekinn af launum sjómannanna í Færeyjum sem er ekki gert á Íslandi.
Til að sýna þetta í tölum er hér tekið dæmi um 2.000 tonna kolmunnatúr hjá annars vegar færeysku skipi og hins vegar íslensku og hvað úterðin greiðir til hins opinbera vegna hans. Í dæminu er miðað við núverandi veiðigjald á Íslandi og almennt veiðigjald af kolmunna í Færeyjum.
Færeyskt skip Íslenskt skip
Veiðigjald, hlutur útgerðar 2,16 kr. 1,16 kr.
(Veiðigjald, hlutur sjómanna 1,11 kr. 0 kr.)
Kolefnisgjald 0 kr. 0,58 kr.
Aflagjald til hafnarsjóðs 0 kr. 0,40 kr.
Samtals, hlutur útgerðar 2,16 kr. per kg. 2,14 kr. per kg.
Í þessu dæmi er gert ráð fyrir að túrinn hafi tekið 5 daga hjá færeyska skipinu höfn í höfn en 7 daga hjá hinu íslenska. Hjá íslenska skipinu er gert ráð fyrir að sigling á miðin og í land að veiðum loknum taki um 30% af þeim tíma sem veiðiferðin tekur og að skipin noti 15.000 l af olíu á sólarhring og aflinn sé 400 tonn á dag. Aflagjald á Íslandi er gjarnan 1,6% af aflaverðmæti. Kolefnisgjald á Íslandi hækkaði á síðasta ári um 50,3% og er nú 11,65 kr. per kg.
Þeir sem hafa raunverulegan áhuga á að skilja hvernig gjöldum hins opinbera vegna fiskveiða er háttað miðað við önnur lönd geta því séð á umræddu dæmi að nauðsynlegt er að horfa til fleiri þátta en veiðigjaldsins þegar samanburður er gerður.
Enn og aftur skal hér hvatt til þess að umræða um veiðigjöld sé vönduð og samanburður við önnur ríki sé raunhæfur. Upphrópanir og gífuryrði bæta hér engu við og nauðsynlegt er að hafa í huga að fiskveiðar snerta lífsafkomu fjölda fólks og fyrirtækja sem eru flest á landsbyggðinni og í mörgum tilvikum meginstoðir atvinnulífs viðkomandi byggðarlaga.