Bjarni Ólafsson AK er að landa makríl til vinnslu í Neskaupstað í dag en hann er með 560 tonn. Þá er Hákon EA að landa þar frystum makríl. Margrét EA er væntanleg í dag með 1000 tonn og Börkur NK á morgun með 1020 tonn. Skipin koma með þennan afla úr Smugunni.
Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði hvort mikið af fiski væri að sjá í Smugunni. „Við sáum mikið af fiski, en eins og áður er mikil ferð á honum og stundum týnist hann hreinlega. Það er engu líkara en fiskurinn gangi þarna fram og aftur – hann hringli þarna um. Nú var hann á hraðri leið í austur en í síðasta túr gekk hann í norðvestur. Við fengum þessi 1020 tonn austarlega í Smugunni, um 50 mílur frá norsku lögsögunni. Aflann fengum við einungis í tveimur holum. Í fyrra holinu fengust 350 tonn og þá var togað í eina fjóra tíma en í síðara holinu fengust 660 tonn en þá var einungis togað í rúman klukkutíma. Fiskurinn sem nú fæst er blandaður. Uppistaðan er 400-500 gr. fiskur en hann er síðan blandaður smærri fiski. Þarna var talsverður skipafloti að veiðum; Rússarnir voru ábyggilega um 20 talsins, en einungis einn Færeyingur auk íslensku skipanna. Líklega eru Færeyingarnir mest að veiða innan færeyskrar lögsögu. Þarna sjást hins vegar engir Norðmenn. Vonandi endist vertíðin talsvert lengur því eitthvað er eftir af kvóta,“ segir Hjörvar.