Um nýliðna helgi var landað um 12.000 tonnum af loðnu í fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar, um 6.000 tonnum í hvora. Í Neskaupstað landaði Bjarni Ólafsson AK rúmum 1.700 tonnum, Vilhelm Þorsteinsson EA rúmum 2.400 tonnum og Beitir NK tæpum 2.000 tonnum en Beitir hafði áður landað rúmum 1.000 tonnum af farminum á Seyðisfirði. Á Seyðisfirði landaði Barði NK tæpum 2.000 tonnum, Börkur NK tæpum 2.900 tonnum og Beitir rúmum 1.000 tonnum eins og fyrr segir.

Nú er verksmiðjan í Neskaupstað búin að taka á móti 11.700 tonnum af loðnu til vinnslu frá því að veiðar hófust á vertíðinni og verksmiðjan á Seyðisfirði hefur tekið á móti 10.000 tonnum. Samtals hafa þær því tekið á móti 21.700 tonnum.

Verksmiðjustjórarnir, Hafþór Eiríksson í Neskaupstað og Eggert Ólafur Einarsson á Seyðisfirði, segja að ljómandi vel gangi að vinna loðnuna. Gert er ráð fyrir að vinnslu verði lokið í báðum verksmiðjum fyrir jólahátíðina og engin vinnsla fari fram á milli hátíða.