12 skip liggja nú í Norðfjarðarhöfn. Hér fyrir ofan er hægt að smella á myndina til að spila myndbandið. Myndbandið tók Hlynur Sveinsson og Guðjón Birgir Jóhannsson klippti.

Mikil umferð skipa hefur verið um Norðfjarðarhöfn það sem af er ári. Vinnsluskipin Polar Amaroq og Vilhelm Þorsteinsson EA hafa landað frystri loðnu á nokkurra daga fresti og norsk loðnuskip hafa landað 6000 tonnum til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar og um 1200 tonn bíða löndunar. Þá hafa kolmunnaskip og togarar komið til löndunar með reglubundnum hætti. Ofan á allt þetta bætist að veruleg umferð flutningaskipa hefur verið um höfnina. Í morgun lágu hvorki fleiri né færri en 12 skip í höfninni og má gera ráð fyrir að verðmæti þeirra sé yfir 20 milljarða króna. Þarna liggja sjö norsk loðnuskip og fjögur Síldarvinnsluskip auk grænlenska vinnsluskipsins Polar Amaroq.

Á myndbandinu sem fylgir fréttinni má sjá skipafjöldann og flotinn er svo sannarlega myndarlegur. Syðst liggur Birtingur NK og Birkeland utan á honum. Næst liggur frystitogarinn Barði NK sem er að taka umbúðir og utan á honum liggur Havfisk. Þá koma norsku bátarnir Krossfjord og Ligrunn og aftan við þá er Gardar sem er að landa loðnu til vinnslu. Fjær má sjá ísfisktogarann Bjart NK sem er að landa og norsku skipin Havdron og Havsnurp. Síðan sést Polar Amaroq vera að landa í fiskimjölsverksmiðjuna og nyrst liggur Börkur NK sem bíður þess að hefja loðnuveiðar.