Í dag er verið að landa 650 tonnum af frystum makríl úr Hákoni EA og er gert ráð fyrir að það sé á meðal síðustu farmanna sem landað verður á vertíðinni. Alls hafa yfir 30.000 tonn af makríl borist til Neskaupstaðar á vertíðinni enda gengu veiðarnar yfirleitt mjög vel. Rúmlega 19.200 tonnum var landað til vinnslu í fiskiðjuverinu en engum makríl var landað beint til mjöl- og lýsisvinnslu. Allur aflinn sem unnin var í fiskiðjuverinu kom frá fjórum skipum: Beitir NK landaði 7.194 tonnum, Börkur NK 5.913 tonnum, Bjarni Ólafsson AK 5.117 tonnum og Margrét EA 985 tonnum. Vinnslan á makrílnum gekk vel og að sögn Jón Gunnars Sigurjónssonar, yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu, var fiskurinn betri en á undanförnum vertíðum. „Fiskurinn var mjög stór og góður alla vertíðina, sérstaklega var hráefnið gott í ágústmánuði. Segja má að allt hafi gengið eins og í sögu á vertíðinni að sölumálunum undanskildum eins og menn vita,“ sagði Jón Gunnar.
Fyrir utan makrílaflann sem barst til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar lönduðu vinnsluskip 12.800 tonnum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar á vertíðinni. Dálítill hluti af því sem landað var er síld sem fékkst sem meðafli. Vinnsluskipin sem færðu þennan afla að landi voru þrjú: Kristina EA, Vilhelm Þorsteinsson EA og Hákon EA.