Gullver NS í höfn á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði á mánudaginn. Aflinn var um 80 tonn, mest þorskur og ýsa. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að aflast hafi vel í veiðiferðinni. „Við byrjuðum veiðar á Undirbyrðahrygg og þar fékkst ýsa. Nafnið á hryggnum er skemmtilegt en það er þannig til komið að Birgir Sigurðsson á Barða NK, fyrsta skuttogara okkar Íslendinga, veiddi þarna mikið. Einu sinni rifum við sex undirbyrði á einum átta tímum þarna á Barðanum og þá var nafnið komið og festist snarlega. Undirbyrðahryggur er nyrst á Papagrunni sunnan við Berufjarðarálsbotn. Frá Undirbyrðahrygg lá leiðin út á Barð við Berufjarðarálinn og síðan í Hvalbakshall. Þar fengum við þorsk. Það var gott veður í túrnum, suðvestan golukaldi. Fiskurinn sem þarna veiddist var hinn fínasti,“ segir Steinþór.

Í frystihúsinu á Seyðisfirði er verið að vinna ýsuhnakka þessa dagana og þar gengur allt sinn vanagang.

Gullver heldur á ný til veiða í dag.