
Um þessar mundir eru að hefjast framkvæmdir við lengingu stálþils togarabryggjunnar en bryggjan verður lengd um 60 metra. Það er fyrirtækið Hagtak sem annast það verkefni og eru verklok áætluð um mánaðamótin apríl-maí.
Samhliða öllum þessum framkvæmdum hefur verið unnið að úrbótum á löndunaraðstöðu fyrir smábáta í höfninni. Guðmundur Guðlaugsson bryggjusmiður frá Dalvík hefur haft með það verkefni að gera og er því að ljúka. Þessi bryggjusmíði er langt á undan áætlun en henni átti að vera lokið 15. apríl.
Framkvæmdirnar við höfnina skipta Síldarvinnsluna afar miklu máli en þrengsli í henni hafa verið til mikilla óþæginda enda umferðin mikil. Sem dæmi má nefna að þegar flutningaskip koma til að taka frystar vörur verður oft að gera hlé á löndun í fiskiðjuverið á meðan verið er að koma skipunum inn í höfnina. Þá geta stór flutningaskip einungis siglt inn í höfnina í blíðviðri og jafnvel þarf björgunarbáturinn Hafbjörg að aðstoða lóðsbátinn Vött við að koma þeim að bryggju. Núverandi framkvæmdir koma til með að gjörbreyta allri aðstöðu og verður höfnin bæði rýmri og öruggari að þeim loknum.