Beitir NK og Börkur NK á kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni

Börkur NK og Beitir NK veiða nú kolmunna í færeysku lögsögunni. Ljósm. Hákon ViðarssonBeitir NK hóf kolmunnaveiðar í færeysku lögsögunni sl. mánudag og Börkur NK hóf veiðar í nótt. Þegar þetta er skrifað er Börkur með sitt fyrsta hol en Beitir með sitt þriðja. Heimasíðan hafði samband við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti rétt fyrir hádegið og heyrði í honum hljóðið. „Það er ekki mikill kraftur í veiðinni en það er dálítið að sjá - dálítið ryk,“ sagði Tómas. „Við fengum 200 tonn í fyrsta holi og 290 í því næsta þannig að við erum komnir með tæp 500 tonn. Við togum allt upp í 18 tíma þannig að hér er um að ræða þolinmæðisverk. Veiðisvæðið er 40-50 mílur norðnorðaustur af Færeyjum. Við hér um borð erum þokkalega hressir og áttum allt eins von á því að það tæki dálítinn tíma að fá í skipið,“ sagði Tómas að lokum.

Nýju efnagreiningatæki gefið nafnið Adda

Heimir Þorsteinsson starfsmaður á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað með nýja tækinu. Ljósm. Hákon ViðarssonÍ októbermánuði síðastliðnum var nýtt efnagreiningatæki keypt á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Um er að ræða svonefnt NIR-tæki (Near Infrared Reflectance). Tæki af þessu tagi eru notuð til efnagreiningar á ýmsum efnasamböndum og nýtast einkar vel til greiningar á fiskimjöli og lýsi. Í framtíðinni er einnig ætlunin að nýta tækið til greiningar á hráefni og á framleiðslu verksmiðjunnar á ýmsum stigum.

Nýja NIR-tækið sem fengið hefur nafnið Adda. Ljósm. Hákon ViðarssonÞetta tæki er í reyndinni tölva sem mötuð er á upplýsingum og þær síðan notaðar til kvörðunar á þeim mæligildum sem eftirsóknarverð eru. Helsti kostur tækisins felst í því hve unnt er að fá niðurstöðurnar fljótt. Með fyrri búnaði rannsóknastofunnar gat tekið allt að sex klukkustundum að ná fram upplýsingum um efnainnihald framleiðslunnar en með tilkomu nýja tækisins tekur það einungis hálfa til eina mínútu. Annar stór kostur við notkun tækisins felst í því að ekki þarf lengur að nota kemísk efni við efnagreininguna.

Tæki af þessu tagi hafa verið til á Íslandi alllengi en þau hafa þróast hratt að undanförnu og þar með orðið auðveldari í notkun. Fyrir liggur að svona tæki munu sífellt verða víðar notuð við efnagreiningar.

Adda að störfum á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað. Ljósm. Guðjón B. MagnússonStarfsmenn Síldarvinnslunnar hafa ákveðið að gefa tækinu nafn fyrrverandi starfsmanns á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar en tækið verður hér eftir nefnt Adda. Er þetta í fullu samræmi við hefðir í fiskimjölsverksmiðjunni í Neskaupstað og er þar skemmst að minnast loftþurrkaranna Finnboga og Freysteins og gufuþurrkarans Bubba. Adda hét fullu nafni  Hjördís Arnfinnsdóttir  en hún lést fyrr á þessu ári.

Adda hóf störf í fiskimjölsverksmiðju  Síldarvinnslunnar árið 1958 þegar fyrirtækið hóf starfsemi. Hún starfaði fyrst í mjölhúsi verksmiðjunnar og síðar um tíma á skilvindum. Störfin í bræðslunni voru framan af yfir sumarið þegar síld veiddist en á veturna vann hún í hraðfrystihúsi Sún. Þrjú sumur tók hún sér frí frá bræðslustörfum og saltaði þá síld á söltunarstöðinni Ás. Upp úr 1970 hóf Adda að starfa á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar og sinnti þar verkum þar til hún hætti að vinna árið 2010.

Á framansögðu sést að Adda starfaði hjá Síldarvinnslunni og tengdum fyrirtækjum í meira en 50 ár og á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar í hátt í 40 ár. Hún var einstaklega duglegur og samviskusamur starfsmaður og því þótti eðlilegt að nefna nýja tækið eftir henni í virðingarskyni þannig að nafn hennar lifði áfram á vinnustaðnum.

Polar Amaroq væntanlegur til Neskaupstaðar með um 2.000 tonn af loðnu

Polar Amaroq að dæla loðnu úr pokanum í grænlensku lögsögunni. Ljósm. Þorgeir Baldursson.Grænlenska skipið Polar Amaroq kom með fyrsta loðnufram haustsins til Neskaupstaðar hinn 13. nóvember sl. Strax að lokinni löndun var aftur haldið til veiða í grænlensku lögsögunni. Nú um hádegisbil hafði heimasíðan samband við Halldór Jónasson skipstjóra en þá var verið að taka síðasta hol veiðiferðarinnar. „Við munum leggja af stað til Neskaupstaðar nú eftir hádegið og aflinn verður um 2000 tonn, þar af eru um 680 tonn fryst,“ sagði Halldór. Þessi afli er fenginn í átta holum. Bestu holin voru fyrst en þá tókum við þrjú 300 tonna hol en síðan hefur aflinn farið minnkandi og í síðustu holunum hefur hann verið um 150 tonn í hverju holi. Þá hefur loðnan einnig farið minnkandi eftir því sem liðið hefur á túrinn; við erum að fá mun smærra síli nú en í upphafi veiðiferðar. Ísinn hefur sótt að okkur og er búinn að hrekja okkur frá því svæði sem við hófum veiðar á. Við erum nú staddir um 100 mílur norð-norðvestur úr Horni um það bil 10 mílur inn í grænlensku lögsögunni. Við reiknum með að verða í Neskaupstað seint annað kvöld,“ sagði Halldór að lokum.

Beitir NK á kolmunnaveiðar í færeysku lögsögunni

Beitir NK. Ljósm. Hákon ViðarssonVerið er að búa Beiti NK til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni. Rætt var við Tómas Kárason skipstjóra í morgun en þá var skipið að taka veiðarfæri á Eskifirði. „Við reiknum með að halda til veiða í dag eða á morgun“, sagði Tómas. „Færeyingarnir eru ekki byrjaðir á kolmunnanum ennþá en það var góð veiði þarna í nóvember og desember í fyrra. Ég hef heyrt að færeysku skipin áætli að hefja veiðarnar í næstu viku. Það er ekkert annað að gera en að fara og skoða þetta. Við eigum töluvert eftir af kvóta og það verður að reyna að ná honum áður en önnur verkefni kalla,“ sagði Tómas að lokum.