Aukin umsvif í veiðum og vinnslu á Seyðisfirði

Gullver NS-12. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS-12. Ljósm. Ómar BogasonEftir að Síldarvinnslan festi kaup á ísfisktogaranum Gullver og fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði hafa umsvif bæði á sviði veiða og vinnslu aukist til mikilla muna, en togarinn og fiskvinnslustöðin eru starfrækt undir merkjum Gullbergs ehf. Á fyrstu þremur mánuðum yfirstandandi árs var afli togarans  1086 tonn á meðan hann var 601 tonn á sama tíma ársins 2014 og 761 tonn á sama tíma ársins 2013. Afli Gullvers hefur að miklu leyti farið til vinnslu hjá Gullbergi en hluti aflans hefur verið unninn hjá Útgerðarfélagi Akureyringa og Samherja á Dalvík auk þess sem nokkuð af aflanum, aðallega karfi, hefur verið seldur ferskur á erlenda markaði.
 
Á fyrstu þremur mánuðum ársins komu 737 tonn til vinnslu hjá fiskvinnslustöðinni samanborið við 306 tonn á árinu 2014 og 535 tonn á árinu 2013. Eins og fyrr greinir kom drjúgur hluti hráefnisins frá Gullver en eins kom hráefni frá Bjarti NK og fleiri skipum.
 
Að sögn Ómars Bogasonar hjá Gullbergi er starfsfólkið ánægt með þessa þróun og sama er að segja um Seyðfirðinga almennt. „Vinnan er samfelld og mikil en það var ekki svo áður,“ sagði Ómar. „Staðreyndin er sú að umsvifin á þessu sviði eru meiri nú en þau hafa verið í mörg ár og það skiptir bæði starfsfólkið og sveitarfélagið miklu máli. Það þurfti svo sannarlega að eiga sér stað umskipti á þessu sviði og nú hefur það gerst. Í reyndinni hefur verið skortur á starfsfólki að undanförnu en í síðustu viku og þessari höfum við notið þess að fá reyndar konur úr fiskiðjuverinu í Neskaupstað til að starfa með okkur. Það er hlé á uppsjávarvinnslunni í fiskiðjuverinu um þessar mundir og við njótum góðs af því. Þau umskipti sem orðið hafa bæði varðandi veiðar og vinnslu eru afar mikilvæg og ánægjuleg,“ sagði Ómar að lokum.

Kolmunnaveiðar að hefjast suður af Færeyjum

 
Beitir NK að kolmunnaveiðum. Ljósm. Tómas Kárason
Beitir NK að kolmunnaveiðum. Ljósm. Tómas Kárason
Börkur og Beitir héldu til kolmunnaveiða í gær og Birtingur mun væntanlega sigla í kjölfar þeirra á morgun. Um þrjátíu tíma sigling er á veiðisvæðið suðar af Færeyjum en vegalengdin á miðin er um 350 mílur. Einungis 12 íslensk skip mega stunda veiðar samtímis á þessum slóðum og í fyrra þurftu skipin stundum að bíða í höfn í Færeyjum eftir að komast að.
 
Fyrir páska var rúmlega 4000 tonnum af kolmunna landað í Neskaupstað. Börkur kom þá með fullfermi og Vilhelm Þorsteinsson EA með 1600 tonn.

Áhöfnin á Polar Amaroq afhendir höfðinglegan styrk

Polar Amaroq á loðnuveiðum. Ljósm: Ísak Fannar Sigurðsson

Polar Amaroq á loðnuveiðum. Ljósm: Ísak Fannar Sigurðsson

Í dag mun áhöfnin á grænlenska uppsjávarskipinu Polar Amaroq afhenda systrunum Áslaugu Ýri og Snædísi Rán Hjartardætrum styrk að upphæð eina milljón króna. Styrkurinn er ætlaður til að kosta þjónustu túlka í fyrirhugaðri sumarbúðaferð þeirra systra til Danmerkur á komandi sumri. Vegna fötlunar eru systurnar algjörlega háðar túlkaþjónustu en fyrir lá að þær þyrftu að kosta slíka þjónustu sjálfar í ferðinni og það var þeim um megn án utanaðkomandi aðstoðar.

                Heimasíðan ræddi við Geir Zoega skipstjóra á Polar Amaroq og segir hann að áhöfnin muni afhendi styrkinn með með mikilli ánægju. „Við vorum að ljúka við að þrífa skipið að aflokinni loðnuvertíð þegar við sáum viðtal við systurnar í sjónvarpsfréttum,“ sagði Geir. „ Þar kom fram að þær myndu ekki geta farið í langþráða sumarbúðaferð án túlkaþjónustu og þær gætu engan veginn ráðið við að greiða kostnað vegna túlkanna úr eigin vasa. Við í áhöfninni eigum starfsmannasjóð og í honum var ein milljón króna. Það kom strax fram sú hugmynd að afhenda systrunum sjóðinn sem styrk til að standa straum af kostnaði vegna túlkanna. Það þurfti ekki að ræða þetta lengi, það voru allir sammála um að afhenda systrunum sjóðinn, jafn Grænlendingar sem Íslendingar í áhöfninni. Fulltrúar áhafnarinnar munu síðan hitta systurnar í dag, skírdag, og afhenda þeim styrkinn með stolti. Það verður gaman að hitta þær og óska þeim góðrar ferðar til Danmerkur“, sagði Geir að lokum.

Togararnir koma til löndunar

Bjartur NK að landa. Ljósm. Hákon ErnusonBjartur NK að landa. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogarinn Bjartur NK er að landa í Neskaupstað í dag en um er að ræða fyrstu veiðiferð að afloknu togararalli. Veiðiferðin var stutt en aflinn um 75 tonn, eingöngu þorskur.
 
Frystitogarinn Barði NK kom einnig til heimahafnar í dag að afloknum góðum túr og mun verða landað úr skipinu á morgun. Afli skipsins er nánast eingöngu gullkarfi, 600 tonn upp úr sjó að verðmæti 164 milljónir. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra var góð veiði allan túrinn þrátt fyrir leiðindaveður, einkum framan af. Aflinn fékkst allur suðvestur og vestur af Reykjanesi, á Melsekk og Jökultungu. Barði millilandaði í Hafnarfirði fyrir um 10 dögum og eftir það tók einungis átta daga að fylla skipið á ný. „Það var mokveiði og stanslaus vinnsla, þannig að við getum ekki kvartað,“ sagði Bjarni Ólafur.
 
Barði mun liggja í höfn í um það bil vikutíma á meðan dálitlar lagfæringar verða gerðar á skipinu.