Kolmunnaveiðin að glæðast

Kolmunnaveiðin er að glæðast. Ljósm. Tómas Kárason.Þegar kolmunnaveiðiskipin héldu út eftir sjómannadag hófu þau veiðar á Þórsbanka en hafa síðan fært sig austur úr Þórsbankanum og eru við veiðar út við miðlínu. Í fyrstu var aflinn heldur tregur en hann hefur verið að glæðast og seinni partinn í gær voru skipin gjarnan að hífa 300-500 tonn. Beitir hífði 350 tonn síðdegis í gær og Börkur um 400 tonn. Minni veiði var í nótt en þó var Börkur að hífa 320 tonn nú skömmu fyrir hádegi.

Ísfisktogarinn Bjartur hélt til veiða eftir sjómannadag og landaði um 40 tonnum af þorski á þriðjudagskvöld eftir rúman sólarhring að veiðum. Hann verður aftur í landi í dag með svipaðan afla. Frystitogarinn Barði er að hefja veiðar á úthafskarfa.

Síldveiðar Síldarvinnslunnar vottaðar

Síldveiðar skipa Síldarvinnslunnar hafa verið vottaðar. Ljósm. Vilhelm Harðarson.Nýverið fékk Síldarvinnslan allar síldveiðar sínar vottaðar. Um er að ræða svonefnda MSC – vottun og nær hún bæði til veiða á norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld. Vottunin felur í sér viðurkenningu á því að síldveiðar á vegum fyrirtækisins séu stundaðar með sjálfbærum hætti og að fyrirtækið muni fyrir sitt leyti vinna að því að strandríki nái samkomulagi um ábyrgar veiðar úr viðkomandi síldarstofnum.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir að vottun veiðanna sé mikilvægur áfangi en áður hafði öll síldarvinnsla á vegum fyrirtækisins hlotið vottun. Segir hann að vottun af þessu tagi skipti miklu máli fyrir sölu afurðanna enda veiti hún kaupendum traustar upplýsingar um að veiðarnar séu sjálfbærar og nýting aflans eins og best verður á kosið. Vottunin styrkir því markaðslega stöðu fyrirtækisins með ótvíræðum hætti.


Skipin til veiða eftir sjómannadag

Börkur NK að veiðum. Ljósm. Geir ZoegaSkip Síldarvinnslunnar hafa verið að halda til veiða eftir sjómannadag. Ísfisktogarinn Bjartur lét úr höfn í gær og kolmunnaveiðiskipin Börkur og Beitir einnig. Frystitogarinn Barði mun halda til úthafskarfaveiða í dag. Kolmunnaveiðiskipið Birtingur mun ekki halda til veiða fyrr en fréttir berast af miðunum.

Alls eiga kolmunnaveiðiskip Síldarvinnslunnar eftir að veiða 15.600 tonn af kvóta yfirstandandi vertíðar en það þýðir að skipin eigi 2-3 veiðiferðir eftir. 


Fjöldi fólks kom að skoða Börk og Beiti og hlýða á Pollapönk

Fjöldi fólks kom til að skoða Börk og Beiti og hlýða á Pollapönk. Ljósm. Hákon ViðarssonSjómannadagshelgin í Neskaupstað var vel heppnuð og hátíðarhöldin sem stóðu yfir í fjóra daga voru fjölsótt. Síðdegis á föstudag voru nýjustu skip Síldarvinnslunnar, Börkur og Beitir, almenningi til sýnis og um leið var efnt til tónleika með Pollapönk á hafnarbakkanum. Mikill fjöldi fólks kom að skoða skipin og hlýða á Pollapönk og virtist fólk njóta stundarinnar til hins ítrasta í veðurblíðunni, ekki síst yngsta kynslóðin. Boðið var upp á grillaðar pylsur með tilheyrandi drykkjum á hafnarbakkanum á meðan skipin voru til sýnis og samkvæmt upplýsingum þeirra sem stóðu við grillið runnu hvorki fleiri né færri en 900 pylsur niður í svanga maga þetta ljúfa og skemmtilega síðdegi.