Síldarvinnsluskipin að hefja veiðar á íslenskri sumargotssíld fyrir vestan

Úr fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hf. Ljósm. Hákon ViðarssonNú eru hafnar veiðar á íslenskri sumargotssíld vestur af landinu og hafa skipin verið að fá góðan afla á Flákanum, 30-40 mílur vestur af Öndverðarnesi. Beitir er á leiðinni á þessi mið og mun væntanlega hefja veiðar á morgun. Börkur er nú að landa um 250 tonnum af norsk-íslenskri síld í Neskaupstað en mun væntanlega halda til veiða fyrir vestan að löndun lokinni.

Vinnsluskip með 18.000 tonn af makríl og síld

Útskipun á makríl og síld í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ViðarssonÁ yfirstandandi makríl- og síldarvertíð hafa vinnsluskip landað um 18.000 tonnum af frystum afurðum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Það eru einkum þrjú skip sem fært hafa þennan afla að landi; Vilhelm Þorsteinsson EA, Kristina EA og Hákon EA. Hákon hefur landað þrisvar sinnum en skipið hóf veiðar seint vegna þess að unnið var að breytingum á því. Að sögn Heimis Ásgeirssonar yfirverkstjóra í frystigeymslunum er vertíðin enn í fullum gangi og er von á Vilhelm Þorsteinssyni og Kristinu til löndunar eftir helgina.

Auk þess að taka á móti afla vinnsluskipanna eru afurðir fiskiðjuversins einnig geymdar í frystigeymslunum þannig að mikið magn fer í gegnum þær. Mest af hinum frystu afurðum fer um borð í flutningaskip í Norðfjarðarhöfn en hluti af þeim er fluttur landleiðina í gámum til Reyðarfjarðar þar sem þeir fara um borð í skip. Að sögn Heimis er von á tveimur skipum til Neskaupstaðar á næstunni til að lesta frystar afurðir. Annað þessara skipa mun taka 3000 tonn til Afríku og er það stærsta skip sem nokkru sinni hefur komið inn í Norðfjarðarhöfn, 150 metra langt.


Rólegt yfir síldveiðunum fyrir austan en háhyrningar áberandi á miðunum

Forvitinn háhyrningur kíkir á Beitismenn. Ljósm. Tómas KárasonHeldur rólegt er yfir síldveiðunum úti fyrir Austfjörðum þessa stundina. Beitir NK er búinn að taka tvö hol í yfirstandandi veiðiferð og fékk 100 tonn í fyrra holinu en 80 í því síðara. Aflinn fékkst í Reyðarfjarðardýpinu. Þeir Beitismenn eru að færa sig sunnar og kanna hvort meira af síld sé sjáanleg þar.

Þegar þeir á Beiti voru að hefja dælingu í morgun varð vart við allmarga háhyrninga við trollið og einn þeirra sýndi athöfnum skipverja einstakan áhuga. Tómas Kárason skipstjóri smellti mynd af þessum forvitna háhyrningi og fylgir hún hér með. Að sögn Tómasar er talsvert um háhyrninga á veiðislóðinni og eru þeir oft fljótir að koma þegar byrjað er að hífa trollið. Þeir vita að gjarnan fellur til æti þegar dælt er og þess vegna borgar sig að fylgjast grannt með og grípa síldina þegar hún gefst.  


Góð síldveiði þegar viðrar

Síld landað úr Berki NK. Ljósm. Hákon ViðarssonAð undanaförnu hafa lægðir gengið yfir landið og haft sín neikvæðu áhrif á veiðar. Síldveiðiskip Síldarvinnslunnar, Beitir og Börkur, lágu við festar í eina þrjá daga  í síðustu viku en héldu til veiða á  föstudagskvöld. Í stuttu máli sagt gengu veiðar skipanna vel . Beitir kom til löndunar með um 850 tonn aðfaranótt sunnudags og Börkur kom síðan í gær með um 1250 tonn. Fengu skipin aflann á Gerpisflaki um 20-30 mílur frá Norðfjarðarhorni. Mun aflinn vera hrein síld; norsk-íslensk síld í meirihluta en verulegur hluti aflans íslensk sumargotssíld. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki virðist síldin alls ekki vera á förum og fáist því stundum býsna góð hol. Norsk-íslenska  síldin sem nú veiðist  er einstaklega myndarleg eða „algjörar bollur“ eins og Hjörvar orðar það.