50 ár frá því að Síldarvinnslan varð fjölþætt fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtæki

Síldarverksmiðja SVN sumarið 1965. Ljósm. Hjörleifur GuttormssonSíldarverksmiðja SVN sumarið 1965. Ljósm. Hjörleifur GuttormssonSíldarvinnslan hf. var stofnuð hinn 11. desember 1957. Tilgangur félagsins var að reisa og reka síldarverksmiðju, síldarverkun og annan skyldan atvinnurekstur í Neskaupstað. Síldarverksmiðja var reist árið 1958 og hinn 17. júlí það ár hófst móttaka síldar til mjöl- og lýsisvinnslu. Þar með var framleiðsla á vegum Síldarvinnslunnar hafin.
 
Á fyrstu starfsárum Síldarvinnslunnar var öll áhersla lögð á rekstur síldarverksmiðjunnar en að því kom að eigendur félagsins vildu auka fjölbreytni starfseminnar. Segja má að árið 1965 hafi orðið skýr þáttaskil í sögu fyrirtækisins en frá því ári hefur Síldarvinnslan í reynd verið fjölþætt fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtæki. 

Fiskvinnslustöðin sem SVN festi kaup á árið 1965. Framan við stöðina er síldarsöltunarstöðin. Ljósm. v.LindenFiskvinnslustöðin sem SVN festi kaup á árið 1965. Framan við stöðina er síldarsöltunarstöðin. Ljósm. v.Linden

Hér skal getið um nokkra merka þætti starfseminnar fyrir réttri hálfri öld eða á árinu 1965. 

-Í marsmánuði 1965 var formlega gengið frá kaupum Síldarvinnslunnar á framleiðslutækjum Samvinnufélags útgerðarmanna. Um var að ræða hraðfrystihús, fiskimjölsverksmiðju, aðstöðu til söltunar á fiski, fiskhjalla og ýmsar aðrar eignir ásamt helmingshlut í síldarsöltunarstöðinni  Ás. Samvinnufélag útgerðarmanna átti meirihluta í Síldarvinnslunni en þegar þarna var komið sögu gekk starfsemi Samvinnufélagsins erfiðlega og því varð niðurstaðan sú að Síldarvinnslan festi kaup á framleiðslutækjum þess og nýtti þau. Með þessari ráðstöfun hóf Síldarvinnslan að sinna bolfiskvinnslu og síldarsöltun en eftir kaupin var síldarsöltunarstöðin venjulega kennd við SVN.
 
Söltun á síldarsoltunarstöð SVN sumarið 1965. Ljósm. v.LindenSöltun á síldarsoltunarstöð SVN sumarið 1965. Ljósm. v.Linden-Árið 1965 hóf Síldarvinnslan útgerð með eigin skipum. Stjórn félagsins ákvað í árslok 1963 að hefja útgerð og var þá samþykkt að festa kaup á 264 tonna fiskiskipi sem var smíðum í A-Þýskalandi og yrði afhent eigendum í nóvember 1964. Um leið var ákveðið að Síldarvinnslan skyldi taka Gullfaxa NK á leigu frá áramótum til vors í þeim tilgangi að aðstoða við öflun hráefnis fyrir hraðfrystihús Samvinnufélags útgerðarmanna. Hið nýja skip Síldarvinnslunnar fékk nafnið Barði og þegar það var í reynslusiglingu á Elbufljóti hinn 20. desember 1964 henti það óhapp að flutningaskip sigldi á það. Barði skemmdist mikið við ásiglinguna en engin alvarleg meiðsl urðu á mönnum. Verulegan tíma tók að lagfæra skemmdirnar og því kom Barði ekki í fyrsta sinn til heimahafnar fyrr en 5. mars 1965. Í októbermánuði 1964 hafði stjórn Síldarvinnslunnar ákveðið að láta smíða annað skip fyrir fyrirtækið. Um var að ræða systurskip Barða sem hlaut nafnið Bjartur. Bjartur kom nýr til Neskaupstaðar 14. maí 1965. Barði og Bjartur voru sérstaklega smíðaðir með síldveiðar í huga. Allt snerist um síld á þessum árum á Austfjörðum.
 
Fyrstu skipin sem SVN eignaðist, Barði NK og Bjartur NK sumarið 1965. Ljósm. v.LindenFyrstu skipin sem SVN eignaðist, Barði NK og Bjartur NK sumarið 1965. Ljósm. v.Linden-Árið 1964 hafði haust- og vetrarveiði  á síld hafist úti fyrir Austfjörðum og var síldartíminn því ekki lengur bundinn við sumarið eins og áður hafði verið. Árið 1965 hófst vinnsla í síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar hinn 11. júní og lauk henni ekki fyrr en 29. janúar árið eftir. Alls tók verksmiðjan á móti 70.200 tonnum af síld á þessari löngu vertíð og var það mesta síldarmagn sem komið hafði til vinnslu frá því hún tók til starfa. Alls framleiddi verksmiðjan 14.797 tonn af mjöli og 10.220 tonn af lýsi á árinu 1965. 
 
-Til að auka hráefnisrými síldarverksmiðjunnar voru byggðir tveir hráefnistankar sem rúmuðu 1200 tonn hvor árið 1965. Eins var byggður nýr lýsistankur og 60 metra langt mjölgeymsluhús. Þegar þarna var komið sögu gat verksmiðjan brætt 700 tonn af síld á sólarhring en meðalafköst voru um 600 tonn.
 
Vel veiddist af síld sumarið 1965. Bjartur NK kemur með fullfermi. Ljósm Björn BjörnssonVel veiddist af síld sumarið 1965. Bjartur NK kemur með fullfermi. Ljósm Björn Björnsson-Veturinn 1964-1965 barst mjög mikið magn síldar að landi og var þá gripið til þess ráðs eftir að allar eiginlegar hráefnisgeymslur höfðu verið fylltar að keyra síld á plön og tún og geyma hana þar uns unnt yrði að taka hana til vinnslu. Fljótlega myndaðist klakabrynja yfir síldarhaugana og vonuðust menn til að hráefnið myndi geymast vel við þessar aðstæður. Þegar brynjan var rofin kom hins vegar annað í ljós. Síldin var orðin að drullu og alls ekki hægt að ná henni af túnunum nema grjót og jarðvegur fylgdi með. Sú tilraun að geyma mikið magn síldar með þessum hætti var aldrei endurtekin en síðar var gerð svipuð tilraun með geymslu á loðnu.
 
-Á þessu fyrsta ári sem Síldarvinnslan starfrækti hraðfrystihús voru einungis frystar 175 lestir af bolfiski en hins vegar 1.679 lestir af síld. Bolfiskframleiðslan var óvenju lítil en síldarfrysting hafði aldrei verið meiri ef miðað er við þann tíma sem Samvinnufélag útgerðarmanna hafði rekið frystihúsið. 

-Á síldarvertíðinni 1965 voru saltaðar 11.514 tunnur af síld á söltunarstöð Síldarvinnslunnar. Þetta ár voru starfræktar sex síldarsöltunarstöðvar í Neskaupstað og var heildarsöltunin 50.968 tunnur.  

Mindfulness-fyrirlestur

hh-logoKl. 10 í fyrramálið verður boðið upp á Mindfulness-fyrirlestur fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Fyrirlesturinn mun fara fram á Hótel Hildibrand og mun hann taka eina og hálfa klukkustund. Það er Hamingjuhúsið sem annast fyrirlesturinn en fyrirlesari verður Ásdís Olsen sem hefur sérhæft sig í að fræða um Mindfulness á vinnustöðum.
 
Mindfulness er áhrifarík og hagnýt leið til að hlúa að mannauðnum og styrkja hann, bæta starfsanda og auka árangur fyrirtækja. Fyrir einstaklinga er helsti ávinningurinn af Mindfulness aukin jákvæðni, vellíðan, bætt samskiptahæfni, aukin einbeiting og ríkari hugmyndaauðgi. Fjölmörg fyrirtæki víða um heim hafa tekið Mindfulness í þjónustu sína.
 
Nánari upplýsingar: www.hamingjuhusid.is 

Þvereyrarbiðinni lokið

 Beitir NK á kolmunnamiðunum. Ljósm. Tómas Kárason Beitir NK á kolmunnamiðunum. Ljósm. Tómas KárasonBeitir og Börkur héldu til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni eftir páskahátíðina. Fyrstu dagana leituðu skipin en ekkert var að sjá. Þá var haldið til hafnar á Þvereyri á Suðurey og þar var legið í tæpa viku. Í morgun var hins vegar látið úr höfn enda höfðu borist upplýsingar um að kolmunninn sé að nálgast færeysku lögsöguna en í fyrra fékkst fyrsti aflinn innan hennar 14. apríl. 
 
Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdans Hálfdanarsonar skipstjóra á Beiti í morgun en skipið var þá statt suður af Færeyjum. „Fiskurinn er að fara að ganga inn í lögsöguna. Færeysku skipin voru að trolla við línuna í gær og þetta er alveg að koma,“ sagði Hálfdan. „Veiðin hófst um þetta leyti í fyrra þannig að vart er hægt að segja að tímasetningin komi á óvart. Við erum búnir að liggja í höfn á Þvereyri  rétt eins og við gerðum á sama tíma í fyrra. Þar lágu Börkur og Vilhelm Þorsteinsson auk okkar og Hákon kom þar einnig til hafnar. Íslenskir bátar lágu víðar og biðu kolmunnans. Þannig voru nokkrir í Kollafirði og einn í Fuglafirði. Ég held að einir átta íslenskir bátar hafi legið síðustu dagana í Færeyjum og einir fjórir eða fimm til viðbótar eru nýlega lagðir af stað til veiða. Það er því ljóst að tölunni tólf verður náð strax, en tólf íslenskir bátar mega veiða kolmunnann samtímis innan lögsögunnar. Það hefur verið gott að liggja á Þvereyri. Þar er góð höfn og þar er gott fólk sem vill allt fyrir okkur gera. Þarna talar annar hver maður íslensku. Við erum búnir að fara í marga góða göngutúra um nágrennið þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið neitt sérstakt. Þá hafa ölkrár á staðnum notið góðs af veru okkar hérna. En nú fara veiðar vonandi að hefjast, kvótinn er ríkulegur og næg verkefni framundan,“ sagði Hálfdan að lokum.

Barði og Bjartur lönduðu í gær

 Barði NK með gott karfahol. Ljósm. Hreinn Sigurðsson Barði NK með gott karfahol. Ljósm. Hreinn SigurðssonÍsfisktogarinn Bjartur og frystitogarinn Barði lönduðu báðir góðum afla í Neskaupstað í gær. Bjartur var með 94 tonn sem fengust í Berufjarðarál. Drjúgur hluti aflans, 46 tonn, var ufsi en 31 tonn þorskur og 14 tonn karfi.
 
Barði kom til millilöndunar enda kominn með fullfermi af gullkarfa sem fékkst að mestu á Melsekk. Alls landaði hann 9000 kössum, sem eru 292 tonn upp úr sjó að verðmæti 75 milljónir.
 
Bæði skipin héldu til veiða strax að löndun lokinni.