Börkur í lokatúrnum á Íslandssíldinni

Nú líður að lokum síldarvertíðar. Ljósm. Hákon ViðarssonBörkur NK hélt til síldveiða vestur fyrir land í gær og er þar um að ræða síðustu veiðiferð vertíðarinnar á Íslandssíldinni hjá skipum Síldarvinnslunnar. Ráðgert var að Börkur héldi til kolmunnaveiða en ákveðið var að fresta því þar sem litlar kolmunnafréttir höfðu borist úr færeysku lögsögunni. Nokkur kolmunni veiddist  við Færeyjar í nóvember og desember í  fyrra og er því grannt fylgst með fréttum þaðan nú. Beitir NK liggur í Norðfjarðarhöfn og er verið að undirbúa hann til kolmunnaveiða.

Polar Amaroq kemur með fyrstu loðnu haustsins til Neskaupstaðar

Polar Amaroq  GR 18-49. Ljósm. Hákon ViðarssonUm klukkan fjögur sl. nótt kom grænlenska vinnsluskipið Polar Amaroq með fyrstu loðnu haustsins til Neskaupstaðar. Aflinn var 430 tonn af frystri loðnu og tæplega 900 tonn sem fóru til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni eða samtals rúmlega 1300 tonn. Heimasíðan hafði samband við Halldór Jónasson skipstjóra og sagði hann að veiðiferðin í grænlensku lögsöguna hefði að mörgu leyti gengið vel en þó hefði óhagstætt veður sett strik í reikninginn. „Við héldum til veiða frá Neskaupstað 2. nóvember“, sagði Halldór. „Við náðum einungis einum degi á miðunum en þá skall á bræla. Þá var haldið inn á Ísafjarðardjúp og legið undir Grænuhlíð og loks var siglt til hafnar á Ísafirði. Á þessum eina degi tókum við þrjú hol og fengum um 50 tonn í hverju þeirra. Að aflokinni brælunni var aftur haldið á miðin og þá var veitt fyrir norðan 68. gráðu eða mun norðar en áður. Þarna fengum við tvo góða daga til veiða og fengum 1100-1200 tonn í fjórum holum. Loðnan sem veiddist þarna norðurfrá var mjög góð og mun betri en við höfðum fengið í upphafi veiðiferðarinnar. Hér um borð eru menn sáttir við þennan fyrsta loðnutúr haustsins og það verður haldið á miðin á ný strax að lokinni löndun“, sagði Halldór að lokum.

26,4 km af pönnum á sólarhring

Loðnan er fryst í pönnum eins og sjást á myndinni. Ljósm. Hákon ViðarssonÁ Tæknidegi fjölskyldunnar sem haldinn var í Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag var Síldarvinnslan með sýningarbás eins og fjölmörg önnur fyrirtæki og stofnanir. Í bás Síldarvinnslunnar voru veittar margvíslegar upplýsingar um starfsemi fyrirtækisins og birtust þær bæði á veggspjöldum og eins í lifandi myndum sem sýndar voru. Á meðal upplýsinganna mátti sjá eftirfarandi staðreyndir um starfsemi fiskiðjuversins í Neskaupstað:
  • -Í fiskiðjuverinu eru fryst 550 t af loðnu á sólarhring (heilfryst í pönnur)
  • -550 t af loðnu eru um 25 milljónir fiska
  • -550 t af loðnu fara í um 44.000 pönnur
  • -Ef 44.000 pönnum er raðað enda við enda er lengdin 26,4 km eða sambærileg vegalengdinni frá miðbæ Neskaupstaðar til Eskifjarðar


Börkur á landleið með 1560 tonn af íslenskri síld – kolmunnaveiðar næst á dagskrá

Börkur NK. Ljósm. Hákon ViðarssonBörkur NK er á landleið með 1560 tonn tonn af íslenskri sumargotssíld og er væntanlegur til Neskaupstaðar seinni partinn á morgun. Heimasíðan hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra rétt fyrir hádegi í dag en skipið var þá nýkomið fram hjá Þorlákshöfn. Hjörvar sagði að veiðin hefði gengið vel í túrnum og aflinn hefði fengist í fjórum holum. „Þetta er flott síld og það gekk vel að ná í hana“, sagði Hjörvar. Stærsta holið gaf 530 tonn en við tókum það í gærdag. Veiðisvæðið var djúpt úti í Kolluál og upp í Wilson‘s Corner en svo nefnist suðvesturhorn Látragrunns“.

Hjörvar sagði að síldarvertíðin hefði gengið vel en nú væri síldarkvóti Síldarvinnslunnar að verða uppurinn. „Þetta er síðasti túrinn okkar á þessari vertíð og nú á að fara að gefa kolmunnanum gaum. Í nóvember og desember í fyrra var kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni og stefnan verður sett þangað. Við þyrftum að ná einhverjum kolmunna áður en árið kveður“, sagði Hjörvar að lokum.