Loðnuskipin halda norður fyrir land og leita loðnu

Loðnuveiðar áður en núverandi bræla skall á. Ljósm. Örn Rósmann KristjánssonLoðnuveiðar áður en núverandi bræla skall á. Ljósm. Örn Rósmann KristjánssonMikil áhersla er lögð á vinnslu hrogna úr förmum loðnuskipanna sem landa nú hvert af öðru. Í Neskaupstað er lokið við að vinna hrogn úr farmi Bjarna Ólafssonar AK í gærkvöldi og þá hófst vinnsla úr loðnu úr Berki NK. Síðan bíða Beitir NK og Birtingur NK löndunar í Neskaupstað og Hákon EA er að landa frystri loðnu. Tiltölulega hátt hlutfall þeirrar loðnu sem veiðst hefur í grennd við Vestmannaeyjar er karlkyns en hlutfall kvenloðnu er hærra í þeim afla sem fengist hefur á Faxaflóa. Færeyska skipið Finnur fríði landaði 200 tonnum í hrognavinnslu í Helguvík í nótt og fékkst sú loðna í Faxaflóa. Eins er Polar Amaroq væntanlegur til Neskaupstaðar í dag með 700 tonn sem fengust í flóanum.
 
Veðurútlit fyrir sunnan land og vestan er ekki gott næstu daga og því munu skipin sem eru að landa fyrir austan sigla norður fyrir land að löndun lokinni. Munu þau freista þess að finna veiðanlega loðnu þar. Bjarni Ólafsson er þegar lagður af stað og verður fróðlegt að frétta hvort hann rekst á loðnu norðurfrá. 

Hrognavinnsla hafin af fullum krafti

Hrognavinnsla hófst í Neskaupstað í dag. Ljósm. Smári Geirsson.Hrognavinnsla hófst í Neskaupstað í dag. Ljósm. Smári Geirsson.Hrognavinnsla hófst í Helguvík um síðustu helgi en hrognin eru þar unnin í samvinnu við Saltver í Reykjanesbæ. Guðjón Þorsteinsson starfar við hrognavinnsluna syðra og lét hann vel af sér þegar haft var samband við hann í gær. „Við byrjuðum á laugardag og unnum hrogn úr farmi sem Vilhelm Þorsteinsson EA kom með. Í beinu framhaldi hefur síðan verið unnið úr tveimur förmum Polar Amaroq,“ sagði Guðjón. „Þetta hefur gengið vel og mannskapur og vélbúnaður er að slípast til. Þá hafa gæði hrognanna  verið á stöðugri uppleið og í fyrrakvöld vorum við að mestu að vinna hrogn sem náð höfðu Japansgæðum en þá er þroskinn yfir 90%. Nú vonumst við bara til að fá sem mest hráefni til að vinna en því miður eru veðurhorfur ekki upp á það besta næstu dagana,“ sagði Guðjón að lokum.
 
Bjarni Ólafsson AK  kom með fullfermi til Neskaupstaðar í morgun og þá hófst hrognavinnslan þar. Mikil áhersla verður lögð á vinnslu hrogna næstu daga en gert er ráð fyrir slíkri vinnslu úr flestum þeim skipum sem nú eru á landleið til Neskaupstaðar. Næsta skip á eftir Bjarna Ólafssyni er Beitir en hann kom til hafnar upp úr hádegi. Á eftir honum koma síðan Börkur og Birtingur.
 

Á ýmsu gengur á loðnumiðunum –góð veiði í gær

Frá loðnumiðunum í gær. Ljósm. Haraldur EgilssonFrá loðnumiðunum í gær. Ljósm. Haraldur EgilssonLoðnuveiðarnar hafa gengið misjafnlega síðustu daga. Ágæt veiði var sl. föstudag en um helgina gekk ver. Þá var kaldafýla á miðunum og lítið fékkst við Reykjanes og í Faxaflóa. Á sunnudagskvöld fannst loðna út af Þjórsárósum og á mánudag var flotinn kominn austur fyrir Eyjar en afli var misjafn. Í gær brast síðan á með hörkuveiði vestur af Vestmannaeyjum og eru öll Síldarvinnsluskipin á landleið með fullfermi eða nánast fullfermi.
 
Frést hefur af loðnu allvíða og fékk Polar Amaroq til dæmis 700 tonn í tveimur köstum á Faxaflóa í gær en var komin austur í morgun á þau mið sem best fiskaðist á í gær. Þá voru bátar að kasta í Meðallandsbugt í gær og fregnir af vísbendingum um loðnu út af Vestfjörðum hafa borist. 
 
Þó að víða sé veiðivon fyrir loðnuflotann er veðurspáin slæm og ekki bjart útlit fyrir veiðarnar næstu dagana af þeim sökum. 
 

Allir að vinna á loðnumiðunum

Birtingur NK að dæla úr nótinni. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonBirtingur NK að dæla úr nótinni. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonÍ gærkvöldi og í nótt var heldur leiðinlegt veður á loðnumiðunum við Reykjanes og lítil eða engin veiði. Í morgun lagaðist veðrið og nú fyrir hádegi var komin blíða. Heimasíðan hafði samband við Kristinn Snæbjörnsson skipstjóra á Birtingi skömmu fyrir hádegi og spurðist frétta. „Hér er ágætis veiði vestan við Reykjanes og ég held að allur flotinn sé að vinna. Flestir hafa verið að fá góð köst. Við erum með þriðja kastið; fengum 500 tonn í því fyrsta, 100 í öðru og það eru líklega um 400 tonn í núna. Loðnan virðist ekki vera á neinni hreyfingu þessa stundina og allur flotinn er hér í einum hnapp skammt frá Eldey,“ sagði Kristinn.